föstudagur, maí 30, 2008 |
4,20.. |
Ég held að keppni geti ekki verið styttri hjá einni manneskju eins og hjá mér í dag. 1 stökk takk fyrir það var allt og sumt sem ég gerði í dag. Tók jú 1 stökk i upphitun líka. Þannig var mál með vexti að það gerði alveg þvílikt úrhelli, þrumur og eldingar að keppninni varð aflýst. Ég var satt að segja fegin því ég var þvílíkt að pína mig til að stökkva. Var vægast sagt mjög slæm í vinstri sininni sem er uppstökkfóturinn. Ekki gaman það. Stökk meira að segja bara á flötum skóm í dag. Sprauta á mánudaginn, hvíld og stökkva svo vel og verkjalaus á sunnudaginn í Regensburg.
Við keyrðum svo beina leið heim og í útvarpinu var endalaust mikið að viðvörunum og talað um að óveður væri úti. Tré lágu yfir einhverjum vegum og flæddi yfir aðra. Brýnt var fyrir fólki að keyra varlega. Á meðan segir Leszek: "Hérna fékk ég síðustu punktana áður en ég missti bílprófið síðast.. Það má keyra á 130 hérna og þá get ég keyrt að mínu mati auðveldlega á 160 en eftir að það var flassað á mig held ég mig bara á 150." Já mér fannst ég í mjög öruggum bílstjóra höndum....not (fer alveg að hætta með þetta not dæmi).
En ég komst á heilu og höldnu heim, eða allavega í heilulagi heim. Hásinin þarf nú einhverja meðhöndlun greyið. |
posted by Thorey @ 21:54 |
|
|
fimmtudagur, maí 29, 2008 |
Pabbi minn 58 ára í dag! |
Til hamingju! |
posted by Thorey @ 17:34 |
|
|
miðvikudagur, maí 28, 2008 |
Mót nálgast |
Næsta mót á að vera núna á föstudaginn í Saulheim. Ég er reyndar frekar slæm í hásininum í dag eftir ferðalag til Hollands í gær vegna fótamælinga. Ég vona ég verði orðin betri á föstudaginn aftur svo ég geti keppt.
Það var semsagt Orthopad í heimabæ Rens í gær, Sittard, og ákvað ég að nýta tækifærið og hitta hann. Hann vinnur með kínverska ÓL liðinu og á að vera voða góður. Ég þurfti að taka 2 spretti berfætt yfir mælingaplötu svo hann sæi hvernig ég beitti fótunum í átaki. Nema fyrir mig að hlaupa berfætt er dauði og er ég að finna vel fyrir því núna. Ég fékk þó allar mælingar og hann mun búa til gaddaskó úr tveimur skóm sem ég á. Annað parið eru reyndar þegar þannig skór en ónothæfir því það var ekki rétt gert. Hann mun semsagt laga þá, búa til eina í viðbót og gera ný innlegg. Hann sagði að fæturnir á mér væru mjög slæmir því liðamótin í ristinni og við hælinn eru svo laus að það skapa mikið álag á hásinarnar. Hann ætlaði að redda þessu með einhverjum voða flóknum innleggjum.
Af Þýskalandi er annars það að frétta að bensínverðið er jú að tröll ríða öllu hérna eins og heima. Í fyrstu fjórum mánuðum ársins jókst ásókn í lestina um hvorki meira né minna en 20 milljón manns! Fólk hjólar líka miklu meira. Flugfélög eru farin að plokka peninga í allskonar aukakostnað eins og að fá að tékka inn tösku kostar 5 evrur og ef maður gleymir að panta fyrirfram fyrir töskuna sem þú ætlar að tékka inn þarftu að borga 10 evrur. Ef maður er með "heavy weight" tösku þarf ekki bara að borga yfirvikt heldur aukagjald fyrir að setja hana á sérstakt bretti.
Um daginn náðist sem betur fer maður sem kastaði 6kg stein niður af brú fyrir ofan hraðbrautina með þeim afleiðingum að kona sem sat í farþegasæti í bíl með manninum sínum sem keyrði og 2 börnum sem sátu aftur í dó þegar steinninn lenti á henni. Fjölskyldan var á leiðinni heim úr fríi.
Mjólkurbændur eru hérna í verkfalli vegna verðstríðs matvörubúða og er verðið orðið svo lágt núna að mjólkurbændur hafa varla efni á kostnaði sínum. Fréttir sýna bændur hella mjólkinni niður og fólk flykkjast í búðir að hlaða sig upp af mjólk.
Natasha Kambush, stelpan sem slapp útúr dyflissu ókunnugs manns þ.s hún var lokuð inni í 7 ár, byrjaði í dag með eigin spjallþátt í austurríska sjónvarpinu. Stuttu eftir að hún slapp hún sagðist hún vilja verða blaðamaður (journalist - hvert er íslenska orðið yfir það aftur? Þ.e orðið sem nær bæði yfir blöð og sjónvarp?)
Svo sá ég þátt í sjónvarpinu í kvöld um tvítugan strák sem missti báða handleggina í slysi fyrir þremur árum. Fyrirtækið Otto Bock (Össur Austurríkis) er búið að finna upp handlegg sem er stýrður af hugsunum hans og hann getur fundið snertingu með honum. Þetta er reyndar ekki fullklárað og segja þeir það muni taka um 3 ár í viðbót við að fullklára verkefnið. M.a vegur handleggurinn í dag 6kg en þarf að komast niður í a.m.k 3kg. Áður en hann fékk að prófa þennan handlegg fór hann í aðgerð þ.s einhverjar taugar úr heilanum og voru lengdar (skildi ekki alveg) niður í brjóstvöðva þ.s hann er ekki með axlarlið. Á brjóstvöðvann eru svo fullt af nemum og dóti og hann getur stjórnað hreyfingunni með huganum. Magnað!
Þetta var útvarp thorey, fréttir verða sagðar næst þegar hana langar til.
Góða nótt |
posted by Thorey @ 21:55 |
|
|
sunnudagur, maí 25, 2008 |
Eurovision |
Í gær voru allir félagar mínir hérna í burtu að keppa svo eurovisionkvöldið varð ég að eyða með sjálfri mér. Langt síðan ég hef upplifað mig svona sorglega eins og í gær en tek það fram að mér leiddist ekki og var meira að segja ekkert svo einmanna. Ég byrjaði á því að fara ein út að borða sem er ekkert nýtt fyrir utan að það var ekki beint eftir æfingu í æfingagallanum heldur á laugardagskvöldi í gallabuxum :) Síðan fór ég og náði mér í pínulítið slikkerí og beið eftir því að keppnin hófst. Nema, aldrei byrjaði hún! Þjóðverjar sýndu ekki keppnina!! Vá hvað ég var svekkt og hneyksluð. Eftir smá bras í tölvunni fann ég þetta á netinu og gat horft á þetta þar sem betur fer.
Íslenska lagið fannst mér koma þvílíkt vel út og þjóðarstoltið blossaði upp í mér þegar þau voru á sviðinu. Sá á mbl að götur voru auðar á Íslandi því allir voru að horfa á sjónvarpið. Þetta er það sem ég dýrka við landið okkar, samstaðan er ótrúleg.
14.sæti raunin og er það frábær árangur. Mitt mat fyrir nágrannakosningum er sú að nágrannaþjóðirnar hafi einfaldlega svipaðan smekk og kjósi þessvegna frændur sína. Sjálfri fannst mér danir og norðmenn mjög góðir og var ég ekki hissa á stigum til þeirra eða frá þeim. Okkur finnst Austur-Evrópa oft með fáránleg lög en ég held að þeim þyki einmitt það sama um okkur í gömlu Evrópu. Við erum hallærisleg í þeirra augum..
Önnur ástæða fyrir nágrannaríkjakosningunni er jú auðvitað líka sú að nágrannalönd blandast meira. Ekki flytjum við til úkraínu og kjósum okkur þaðan.. Það er mikið um tyrki í Þýskalandi og meðal annars þessvegna fá tyrkir alltaf mikið af stigum frá þjóðverjum. Annars fannst mér tyrkneska lagið í þetta sinn bara alveg ágætt. Einnig búa jú margir íslendingar í danmörku og hjálpa okkur þar að fá þessi 12 stig.
Einu stig þjóðverja voru 12 stig sem þeir fengu frá Sviss. Hljómsveitin No Angels söng fyrir þjóðverja og er þetta band mjög vinsælt hér og ná vinsældir þeirra niður til Sviss. Var ekki rússinn einmitt celeb í Austur - Evrópu?
Hættum að svekkja okkur á þessari kosningu. Þetta er bara svona, verður svona og við erum svona sjálf!
Þótt við eigum kannski ekki mikinn sjéns á sigri í þessu þá eru aðrar þjóðir í sömu sporum. Það er jú bara 1/43 líkur á að vinna (voru ekki 43 lög sem tóku þátt?) Samstaðan, skemmtunin og að komast í úrslitakeppnina er algjörlega þess virði þátttöku Íslands að mínu mati. |
posted by Thorey @ 07:38 |
|
|
laugardagur, maí 24, 2008 |
Það hafðist |
Rúmur sólarhringur sem fór í það að hitta lækninn í 10 mín og fá 5 sprautur. Ég fékk reyndar lika vítamín í æð og teygjubindi yfir zink lækningar bindi á lappirnar. Læknirinn sagði þó margt jákvætt og er hann enn viss um að þetta eigi allt að lagast. Það var einhver bólga enn í sinunum og einnig er þessi hulla utanum hana klesst við sinina sem skapar mikinn verk. Hann sprautaði efni þarna á milli til að losa hana frá.
Ég gisti í þetta sinn á hoteli þ.s kærasti stelpunnar sem ég fékk að gista síðast upp í rúmi hjá, var í heimsókn... Pantaði tiltölulega ódýrt hótel af Munchenar mælikvarða og var það svona líka glæsilegt eins og þið sáuð á myndinni. Svaf allavega ekki mikið en bætti það upp með að sofa aðeins á grasinu á flottu myndinni af mér hérna að neðan.. (not). Svaf síðan 10 tíma í nótt og vaknaði við það að kónguló hljóp yfir lappirnar á mér. Hefði annars sofið lengur.. Af þeirri kónguló er annars það að frétta að hún er enn á lífi inní svefnherbergi og er örugglega að verpa litlum kóngulóareggjum í dýnuna hjá mér. Nei nei vonandi ekki svo slæmt og ég mun leita hana uppi með ryksuguna að vopni seinna í dag. Ekki að nenna því núna. Ætla að fara að lyfta og horfa á mót hérna á vellinum hjá mér. |
posted by Thorey @ 07:15 |
|
|
föstudagur, maí 23, 2008 |
Solbad a 'austurvelli' |
Er bara ad dreda timann fram ad flugi hér frekar en i budunum utum allt. Hlakka til ad koma aftur heim eftir hálf skritna nott. Enn 5 timar i tad. |
posted by Thorey @ 12:27 |
|
|
|
Uppáhaldid! |
Algjörlega frábaer matur og hreinlega mitt uppáhalds. Ef tid eigid leid um munchen er Sasou vid Marienplatz málid. Japanskur matur. |
posted by Thorey @ 11:54 |
|
|
fimmtudagur, maí 22, 2008 |
8 fm hotelherbergi! |
Stend alveg vid hurdina tegar èg tek myndina. Sameiginlegt klosett fram à gangi og ekkert sjonvarp. Samt 3ja stjöqnu hotel á 6500 nottina :) Sem betur fer er ég bara eina nott i munchen i tetta sinn og èg brosi breitt yfir tessu kostulega hoteli! |
posted by Thorey @ 19:51 |
|
|
|
EM í fótbolta |
Eins og flestir vita fer EM í fótbolta að hefjast. Það er klárt mál að sum liðin eru með meiri peninga á milli handanna og geta gert meira fyrir menn sína. Ég held að það sé óhætt að segja að nóg sé af peningum fyrir þýska liðið. Núna eru allir leikmenn liðsins staddir á Mallorca ásamt fjölskyldum til að jafna sig eftir leiki vetursins. Borgað var fyrir heilt stór glæsilegt hótel til að enginn annar en þeir yrðu þarna til að trufla. Síðan fara fjölskyldurnar heim og við taka viku æfingabúðir. Að sjálfsögðu er nóg af læknum, sjúkraþjálfurum og öðru aðstorðarfólki til staðar til að þjóna þeim.
Á morgun á ég tíma hjá einum af þessum læknum (sami og síðast). Hann er við bara á morgun og tekur við sjúklingum bara þá því svo er hann næsta mánuðinn með landsliðinu. Ég var alveg hrikalega heppina að fá tíma, finnst það hreinlega þýða það að tímabilið mitt geti orðið gott. Án þessa læknis gæti ég einfaldlega ekki æft og hvað þá stokkið! Semsagt takk takk takk þú þarna uppi ef þú ert til :) |
posted by Thorey @ 12:45 |
|
|
miðvikudagur, maí 21, 2008 |
Allt að koma |
Stökk í gær og verður hver stökkæfingin núna alltaf betri og betri. Stökk bara á gúmmiteygju til að einbeita mér frekar að tækninni heldur en að fara yfir. Enn einu sinni var ég þó bara í flatbotna skóm en býst við að geta stokkið á göddum í næstu viku. Ég er nefninlega að fara til Munchen aftur á fimmtudagskvöld og fæ eina meðferð hjá lækninum á föstudaginn. Ætti að tryggja mér allavega 2 góðar vikur með því. Síðan er næsta mót þann 30.maí í Saulheim. Þar næst er mót í Regensburg 8.júní og svo í Marokkó þann 14.júní. Ég hlakka svo til að taka svona seríu af mótum. Mjög langt síðan að ég hef getað keppt helgi eftir helgi.
Hitti í gærkvöldi stelpu frá Mauritius sem býr í Leverkusen af því að hún er gift manni héðan. Áður bjó hún í Jóhannesarborg, Dubai og Doha! Vann þar á hóteli við að stjórna VIP móttökum. Hitti þar þjóðverja og kom með honum hingað. Einnig var írsk stelpa með okkur sem býr núna hérna til að æfa hástökk. Áður bjó hún á Ítalíu og svo auðvitað á Írlandi. Semsagt mjög alþjóðlegt kvöld með 3 konum sem hafa búið samtals í 10 löndum! Gátum sko talað um ýmislegt :) |
posted by Thorey @ 07:51 |
|
|
sunnudagur, maí 18, 2008 |
Foreldravika |
Mamma og pabbi komu til mín á mánudagskvöld og fóru aftur heim í morgun. Þessi vika gjörsamlega flaug áfram. Nánast allan tímann var sól og bliða (stundum of mikil blíða fyrir mömmu) og var farið í göngutúra, til Kölnar, bæinn í Leverkusen, verslað, æfingu og í lautarferð útí garð... já við útbjuggum salat og settumst á teppi útí garð. Voða kósý :) Ég fór einnig á tvær stökkæfingar og voru mamma og pabbi á pöllunum þá. Pabbi tók myndir sem ég setti á thorey.net ásamt fleiri myndum frá vikunni. Stökkæfingarnar gengu vel og er ég komin í mjög gott form á 12 skrefunum en þarf að ná að beita mér betur á fullu atrennunni. Það kemur og ég finn þetta verða allt betra með hverri æfingunni. Gúmmíteygjan var í 4,30 í gær og var ég bara rétt að strjúka hana. 4,20 er orðið auðveld hæð á 12 skrefunum. En vikan þurfti víst að líða og er ég orðin ein aftur í kotinu. Frekar tómlegt og næsta vika verður lengi að líða. Frábær vika að baki og ég er ekkert smá ánægð með þau að hafa skellt sér til mín. Efstu myndirnar eru myndir sem ég tók fyrir stúdíoportrait verkefnið sem ég er búin að vera að bögglast með. Eins og sést er lýsingin ekki alveg að gera sig með lömpum útúr búð en gaman að hafa reynt og finnst mér þau bæði voða sæt á þessum myndum. Svo koma 2 myndir frá Köln og þá úr lautarferðinni. Svo erum við neðst 3 voða sæt í einum göngutúr hérna um sveitina. |
posted by Thorey @ 19:44 |
|
|
föstudagur, maí 16, 2008 |
|
|
posted by Thorey @ 17:01 |
|
|
sunnudagur, maí 11, 2008 |
Doha |
Ég komst semsagt heilu og höldnu heim úr þessu frekar erfiða ferðalagi. Við ferðuðumst heim strax eftir mótið og ég svaf í um það bil hálftíma í flugvélinni. Var síðan ekki komin heim fyrr en 10 um morguninn og vá hvað ég var dauð! Byrjaði á því að steinrotast til kl 17!
Þrátt fyrir ferðalagið sjálft var ferðin í heild skemmtileg. Svo gaman að vera komin á alvöru mót í góðri umgjörð. Ég lít á veru mína á mótinu svo allt öðrum augum en áður fyrr. Áður var þetta vani og eiginlega bara sjálfsagt en núna upplifði ég svo mikið þakklæti fyrir að geta og mega vera með, ég hreinlega saug í mig hverja mínútu sem ég átti þarna. Mér finnst svo skrítin tilfinning að vera nánast heil og jafnvel í formi aftur.
Já jafnvel í formi.. Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þegar ég mætti í upphitun og vanalega er mitt fyrsta mót algjört basl. Atrennan í rugli og stökkin öll hálfgert klúður. Í þetta sinn var þetta nefninlega ekki svona. Það var mótvindur í upphitun en ég ákvað að ég yrði bara að stökkva sama hvað á gengi því vinstri hásinin var ekki nógu góð. Varð semsagt að stökkva strax og vera ekki að eyða umferðum í rugl. Tók strax 4,45m stöng sem ég hef ekki notað síðan á HM í ágúst, plantaði henni og svo bara sveif ég! Hrikalega var ég hissa :) Lét það gott heita af upphitun og byrjaði svo bara í 4m eins og nánast allar stelpurnar útaf mótvindinum. Öll stökkin mín voru góð og það var ekkert basl og rugl í gangi. Ég er tilbúin til að hækka gripið og fara á stífari stangir. Vá hvað þetta var gaman!! Hlakka til næsta móts sem verður þann 30.maí í Saulheim og Leszek verður meira að segja þar.
Í Doha var mjög heitt. Ég ætlaði að gerast svo djörf að fara niðrí miðbæ og taka nokkrar myndir daginn fyrir mótið og bað um að vera skutlað í "city center". Ok ekkert mál og c.a 5 mínútum seinna stoppaði bíllinn fyrir framan risastóran innandyra verslunarkjarna (mall..). Ég varð nú frekar súr en nennti ekki að fara að reyna að biðja gaurinn um að keyra mig annað. Steig út úr bílnum og þá blöstu við mér þessi risastóru stafir á byggingunni City Center. Ok smá óheppni en ég virkilega spyr mig samt hvort það sé enginn venjulegur miðbær þarna eins og í flestum borgum vegna hitans. Það er bara ekki hægt að rölta um á venjulegum tíma dags utandyra í búðarrápi (fór reyndar í eitthvað gullhverfi 2005 en þar voru bara skartgripabúðir). Á kvöldin lifnaði borgin við, göturnar fylltust af fólki í göngutúrum eða að leika við börnin við ströndina í myrkrinu. Qatar er víst afslappaðasta múslimaríkið á þessum slóðum og þótt þú labbir úti karlmannslaus er það enginn heimsendir. Ég sá öll tilvik á götunum: mann með konuna og þau bæði hulin, huldar konur saman að versla án karlmanns og konur í venjulegum fötum. En ég tók líka eftir því að þegar ég labbaði í hnéstuttu gallabuxunum mínum framhjá karlmönnum var gjörsamlega starað á fótleggina á mér. Margar af "huldukonunum" voru rosa gellur þótt það sæist í ekkert nema augun eða rétt í andlitið. Kuflarnir með allskonar skrauti og flestar með rosalega flottar handtöskur frá dýrum merkjum. Skórnir einnig glæsilegir og svo eru þær einnig mjög mikið málaðar.
Ég tók ekki mikið af myndum því mér fannst nú ekkert mjög aðlaðandi myndefni í verslunarkjarnanum. Á eitthvað frá hótelinu og þetta sem ég tók hér að neðan. Set samantekt frá maímyndum seinna inn á thorey.net |
posted by Thorey @ 14:46 |
|
|
föstudagur, maí 09, 2008 |
Fyrsta mót búið |
Þetta gekk bara skal ég segja ykkur vel!!! Mitt besta tæknilega séð fyrsta mót ever! Hæðin var þó ekki nema 4,20 en ráin var sett síðan beint í 4,40 og ég var svo óheppin að fara ekki yfir 2x. Þetta rann allt í gegn og tæknin var bara virkilega góð :) Hægri hásinin var alveg frábær en sú vinstri því miður mjög slæm. Ég verð líklega að drífa mig í fleiri sprautur þegar ég kem heim til Leverkusen.
Við förum beint heim i kvöld eða réttara sagt leggjum við af stað eftir hálftíma. 6 tíma næturflug til Frankfurt og svo 2 tímar í bíl! Úff hvað ég verð dauð þegar ég kem heim. Kem með ferðablogg fljótlega. |
posted by Thorey @ 19:21 |
|
|
fimmtudagur, maí 08, 2008 |
|
|
posted by Thorey @ 18:46 |
|
|
|
Og med Henna |
|
posted by Thorey @ 17:07 |
|
|
|
Gala kvöld |
Og allir i buningum.. |
posted by Thorey @ 17:04 |
|
|
|
Hotelid |
|
posted by Thorey @ 09:06 |
|
|
þriðjudagur, maí 06, 2008 |
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir? |
Fyrir utan að knúsa börnin þín og maka..??
Mér finnst skemmtilegast að standa aftast á atrennubrautinni, möndla stöngina, fara yfir stökkið í huganum, hlaupa af stað, finna rythmann, finna mig sterka, finna mig háa og svo hvernig ég næ að auka inn í plantið, þegar ég planta beint fram fyrir mig, negli inn í stöngina og tekst á loft, finna svo hvernig ég næ að detta afturábak og fara yfir ránna. Þessa tilfinningu fékk ég í fyrsta sinn í gær á fullu atrennunni. Nema það litla smáatriði að fara yfir ránna... Semsagt skemmtilegasta æfingin hingað til og ég var loksins að stökkva stangarstökk (en ekki hanga og slettast á stöng stökk). Var þó ekki í göddum því ég vildi spara lappirnar aðeins fyrir keppnina. Ég er nú samt frekar eftir mig í dag en á nudd á kvöld svo þetta verður allt í lagi.
Brottför í fyrramálið svo ég bara æfi og pakka í dag ásamt því að taka aðeins til því mamma og pabbi koma svo á mánudaginn!! Jeij!!
Annars ætla ég að láta ykkur vita af mjög ódýrum miðum hjá Germanwings en þeir fljúga beint frá Keflavík til Kölnar fyrir 17.000kr!! Byrjar í júní og endar um miðjan september. |
posted by Thorey @ 07:37 |
|
|
sunnudagur, maí 04, 2008 |
Helgin |
Ég stökk á föstudaginn í gaddaskóm á æfingu í fyrsta sinn í mjööög langan tíma. Man ekki hvort ég stökk nokkuð í fyrra á æfingu í göddum, held hreinlega ekki. Semsagt stökk held ég síðast árið 2005 í göddum á æfingu!!! Það var satt að segja skrítið að vera í göddum en þægilegt. Fann reyndar svolítið til en verkurinn var réttu megin við línuna. Hljóp fínt og var öruggari í atrennunni en gerði samt ekki mikið á stönginni. Það kemur, erfitt að ná öllu í einu svo þetta var skref í rétta átt. Stekk á morgun aftur en verð líklega bara á flötum. Verð aðeins að spara mig.
Búin að vera að taka myndir fyrir ljósmyndanámið um helgina en ég hætti reyndar við að kaupa þessi stúdioljós. Bara dýrt! Redda þessu bara með ikea ljósum í þetta skiptið enda ekki ætlast til að við komum okkur upp pro græjum í þessum kúrsi. Ásamt studio myndum er eitt verkefni núna að taka hreyfðar myndir. Þ.e með hreyfðan bakgrunn en skarpan hlut/persónu í forgrunni og öfugt. Set hérna myndir frá helginni til gamans inn,. Hefði viljað hafa verkefnis myndirnar betri en ég er bara að byrja, mun reyna aftur. Þetta er erfiðara en að segja það. Er nú langt í frá orðin almennilegur ljósmyndari en hef lært mjög mikið enn sem komið er.
Einnig kíktum við Angi í dag á maraþon hlaup í Düsseldorf í dag og þar vann liðsfélagi okkar kvennaflokkinn og komst í Ólympíuliðið. Samglöddumst henni mjög. Nutum síðan veðursins með kaffi og vöfflu og fleiru góðgæti. Það er spáð sól og hita hérna eins langt og spáin nær!! |
posted by Thorey @ 16:58 |
|
|
fimmtudagur, maí 01, 2008 |
Styttist í mót |
Það er orðið klárt að ég flýg til Doha á miðvikudaginn og keppi þar á föstudaginn. Eins og ég segi fer ég þangað engan vegin tilbúin en maður verður víst að byrja einhvern tímann að keppa. Ég hef svosum sjaldan verið tilbúin fyrir fyrsta mót. Einu sinni var ég aldrei búin að stökkva á fullri atrennu og gerði það fyrst í keppninni.. góður undirbúiningur það..
Vikan er voðalega róleg hjá mér núna og ég býð bara eftir næstu stökkæfingu sem er jú á morgun. Kíkti í Nachos á Havana með Angi um daginn bara til að komast aðeins útúr húsi og fara þá annað en á æfingu.
Hér er að sjálfsögðu mikið talað um sorglega fjölskylduatburðinn í Austurríki. Í öllum spjallþáttum er rætt við lækna, sálfræðinga eða fyrrverandi fórnarlömb slíkra atvika. Ein kona sem pabbi hennar og afi er sami maðurinn sagði að fleiri en karlinn gætu ekki annað en að hafa vitað þetta. Það er einnig mikið spurt hvernig nágrannar gætu ekki hafað tekið eftir neinu eða lögreglan hafi ekki reynt að hafa uppá Elisabeth eftir að hafa átt að hafa skilið 3 börn fyrir framan dyragættina. Hugsið ykkur að eina ástæðan, og þvílíkt lán í óláni, fyrir að þetta uppgötvaðist var að 19 ára stelpan varð lífshættulega veik og læknarnir gátu ekki fundið hvað var að henni. Þá þurfti að finna móðurina til að geta komist betur að niðurstöðu um hvað amaði að. Læknarnir auglýstu eftir henni í sjónvarpinu. Hryllilegt mál í alla staði og manni verður hálf flökurt að lesa eða horfa á fréttir um þetta. |
posted by Thorey @ 16:30 |
|
|
|
|