the
 
the
miðvikudagur, maí 30, 2007
Allt að skella á
Aðeins 4 dagar í að tímabilið hefjist og hefur biðin eftir þessum tímapunkti verið mjög löng. Ég er um 90% heil og er það besta heilsan núna í 19 mánuði. Þetta er satt að segja frekar skrítin tilfinning að finna svona lítið til en alveg sú besta í heimi. Ég er alveg á því að heilsan er eitt af því dýrmætasta sem maður á.

Ég er alveg þokkalega bjartsýn á sumarið þótt ég búist nú ekki við neitt glæsilegri byrjun samt. Fyrstu mótin gætu orðið frekar mikið ströggl enda bara búin að fara 2x á keppnisatrennu allan þennan meiðsla tíma minn. Ég stökk (skokkskóm) í dag á þeirri atrennu i þetta annað sinn og gekk það bara allt í lagi. Keyrði betur núna inn í stöngina en var þá að gleyma nokkrum tæknilegum hlutum. Ef ég sameina þessar 2 æfingar fæ ég út mjög góða uppskrift af árangri. Sú niðurstaða skilar mér góðri bjartsýni. Hljóp einnig 30m fljúgandi í dag á 3,61s í göddum. Markmiðið 3,55 nálgast því hratt :)

Ég keppi á mjög litlu móti á sunnudaginn i Saulheim, Þýskalandi. Síðan fer ég strax á mánudaginn til Mónakó og keppi svo þar þann 7.júlí á smáþjóðaleikunum. Verð 5 daga þar með landsliðinu og ég hlakka mikið til. Ég hef ákveðið að taka pínulítið annan púls í stangarstökkið núna og bara leyfa mér að hafa gaman með því. Auðvitað innan marka, þið skiljið. Ætla bara aðeins að sleppa að vera með svipuna alltaf á lofti..

Er til dæmis að fara á Justin Timberlake tónleika þann 10.júní! Verður bara geggjað! Svo er ég jafnvel að spá í að fara á Incubus lika núna í júní.

Og að lokum, eins og Ásta Lovísa sagði:
Þökkum fyrir daginn í dag og opnum fyrir hjartað.

Blessuð sé minning hennar.
posted by Thorey @ 18:33   3 comments
þriðjudagur, maí 29, 2007
Bayer!

Oh þeir töpuðu og eru núna úr leik. Leiddu allan tíman en töpuðu á síðustu 5 mínútunum. Svekkjandi.
Missti stökkæfingu á mánudaginn og fór að láta líta á hnéð í dag. Það er ekkert alvarlegt að og ég fékk nokkra pakka af bólgueyðandi og einhverjum ensímum sem eiga að auka efnaskitpin. Engar áhyggjur, allt löglegt og þessi ensími má meira að segja kaupa án resepts (og fékk vegna þess zwibelmettwurst eða laukpulsu í kaupbæti... já þetta er furðuleg þjóð). Ég stekk á morgun og held minni keppnisáætlun. Mjög fegin að fá grænt ljós. Hef aldrei verið með verki í hnjám svo ég þekki ekki neitt til í hnémeiðslum. Varð því pínu hrædd en greinilega að óþörfu.
Pabbi á afmæli í dag svo ég óska honum að sjálfsögðu innilega til hamingju með daginn.
posted by Thorey @ 18:37   0 comments
sunnudagur, maí 27, 2007
Úff tæpt...
Fékk smá sjokk í gær. Var á fimleikaæfingu og var að sjálfsögðu nærri búin að stórslasa mig. Lenti mjög illa eftir framheljar og datt með fótinn undir mig og snéri illa upp á hnéð. Heyrði brak og bresti og hélt að nú væri þetta bara búið... En viti menn, þetta var bara vont en ekkert meira en það. Shitt hvað maður er á nálum með þenna skrokk á sér.

Það er nýútkominn stór dóp skandall hérna í Þýskalandi. Ég hef reyndar ekkert séð talað um þetta á mbl en hér er þetta á allra mann vörum eins og er. Bestu hjólreiðakappar Þýskalands voru með blaðamannafund í vikunni þar sem þeir viðurkenndu að hafa tekið EPO. Þetta er hið svokallaða T-Mobile lið Þjóðverja sem var með Jan Ullrich í fararbroddi. Sá féll einu sinni á lyfjaprófi en var þó ekki á blaðamannafundinum. Hann heldur því enn fram að hafa verið hreinn.

Nú er fólk að tala um að Tour de France sé einfaldlega of erfitt og það verði að stytta túrinn til að þeir sem eru hreinir eigi einhvern sjéns. Leszek sagði í gær að þeir sem yfirhöfuð komast í þessa gulu treyju eins og staðan er í dag, eru allir á dópi..
Leiðinlegt samt í raun að koma með svona statement því auðvitað er sá saklaus þar til sekt er sönnuð. En maður spyr sig samt.

Sit annars spennt fyrir framan tölvuna að bíða eftir úrslitum frá Götzis og svo fylgist ég með MÍ í fjölþrautum. Í Götzis er Jennifer Oeser í svaka formi en hún leigði herbergið af mér hérna á meðan ég var heima í meiðslunum í fyrra. Einnig var mikið um keppnir í gær og stukku strákarnir allir í Hengelo. Jeff Hartwig (fertugur!) vann með 5,70 en annar var Tim með 5,65. Richi var svo með 5,60. Björn Otto fór ekki nema 5,30 og Danny hætti við að keppa.

Eftir viku er svo komið að mér :)

Er að lesa bókina Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn. Finnst mjög mikið um góða punkta þar og tvímælalaust eitthvað sem ég ætla að tékka á. Þetta er einfaldlega bók sem allir ættu að lesa og tileinka sér.

Hugleiðing úr bókinni:
Manneskjan hefur þrjár spegilmyndir; sú fyrsta er hvernig þú sérð sjálfan þig, önnur hvernig aðrir sjá þig og sú þriðja er sannleikurinn.
posted by Thorey @ 10:26   4 comments
föstudagur, maí 25, 2007
Lítill sigur
Fór í 16 skrefin í fyrsta sinn síðan í september 2005!! Var samt bara á skokkskónum en fór 4,20. Var mjög sátt með mig :) Nú er bara að komast almennilega inn í hlauparythmann og negla inn í stöngina. Mér fannst atrennan hálfgert maraþon og við plantið gaf ég engann kraft inn í stöngina. Það er ekkert stórmál að laga það en það lagast bara við að stökkva oftar á fullri atrennu. Næ tveimur tækniæfingum fyrir fyrsta mótið mitt þann 3.júní.

Var að koma núna úr hádegismat hjá Gudrunu, konan sem ég bjó hjá fyrsta hálfa árið mitt hérna. En hún er ný komin á eftirlaun og er ein þannig að henni leiðist stundum. Við erum 3 íþróttamenn sem fengum hana til að elda fyrir okkur c.a 2x í viku og við borgum matinn. Æði að mæta til hennar beint eftir æfingu og maturinn bara tilbúinn á disknum! Lúxus! Fáum forrétt, aðallrétt og eftirrétt og erum að borga um 500kr!!

Ég ætla síðan að lyfta núna seinnipartinn og spretta í fyrramálið. Angi er svo að fara að keppa í Dormagen seinnipartinn á morgun og ég er að spá í að fara og hvetja hana. Kominn tími á að hún fari yfir 6m aftur.
posted by Thorey @ 13:19   1 comments
þriðjudagur, maí 22, 2007
Bayer og stökkæfing
Stökk úti áðan í fyrsta sinn í sumar hér á vellinum. 25 stiga hiti og smá sól. Gekk bara alveg ágætlega. Ekkert brilliant heldur bara fín æfing sérstaklega miðað við ástandið á harðsperrunum. Var bara enn á 12 skrefunum en með ránna í 4,10. Fór nokkrum sinnum yfir. Vona að vöðvarnir verði ferskari á föstudaginn og ég geti farið í 16 skrefin.

Annars eru flestir hálf sjokkeraðir hérna. Bayer, styrktaraðili félagsins ætlar að hætta að styrkja allar greinar nema fótbolta árið 2009. Þeir eru búnir að styrkja félagið í held ég um 100 ár. Þetta þýðir að ef ekki fæst nýr styrktaraðili þá mun enginn íþróttamaður fá hjá þeim laun. Semsagt körfubolti, blak, handbolti og frjálsar íþróttir munu nánast leggjast niður. Aðeins ungir krakkar og áhugaíþróttamenn munu æfa. Maður getur ekki annað en spurt sig hvort eina íþróttin verði fótbolti eftir um 50 ár. Fótboltinn mokar jú inn áhorfendunum á meðan hinir eru nánast að grátbiðja þá um að mæta (sérstaklega á Íslandi). Er þetta samt það sem fólk virkilega vill?? Bara fótbolta? Ef ekki þá finnst mér að fólk eigi að fara verða duglegra að sýna sig á pöllunum og styðja þannig undir greinina.
Það sem meira er, Bayer hefur aldrei verið í jafn miklum gróða og nú! Það gerir mér óskiljanlegt að fatta þetta skref hjá þeim.
posted by Thorey @ 12:50   0 comments
mánudagur, maí 21, 2007
Kæri Fréttablaðsmaður
Þar sem ég veit ekki hver það var sem hringdi í mig í gær frá Fréttablaðinu til að tékka á mér vona ég bara að þú lesir þetta...
Hvað er málið með þessa mynd! Það liggur við að ég geti farið í skaðabótamál við ykkur... Ji þetta er hræðilegasta mynd í heimi. Eins og ljósmyndarinn ykkar tók nú margar flottar myndir af mér á ÓL í Aþenu þá skil ég ekki af hverju þessi er nánast alltaf valin.
Vinsamlegast ekki birta þessa mynd aftur. Buxurnar uppá nafla (þær voru of stórar á mig og hafa líklega orðið svona við eitt stökkið..) og hokin eins og níræð kelling. Mjög kvenlegt og fallegt. :) Þið verðið nú bara að bæta mér þetta upp einhvern veginn þið fréttablaðsmenn.. ;)

Annars allt fínt að frétta. Með þvílíkar harðsperrur eftir sprettæfingu í gær. Hljóp 30m fljúgandi 3,72 á skokkskónum. Stefni á 3,55 í göddum eftir 6 vikur. Það lítur út fyrir að ég muni geta farið í gadda í vikunni því hásinin ætlar hreinlega að hlíða mér. Þetta er alveg ótrúlegt að geta gengið og hlaupið í þokkabót alveg verkjalaus.

Fór til Kölnar í morgun í blóðprufu. Fer af og til að athuga hvort það vanti nokkur vítamín. Einnig er ein baktería sem virðist fara í fólk í suður afríku og ég vil bara vera viss um að hafa hana ekki. Nenni ekki einhverjum óþarfa slappleika kannski á miðju keppnistímabili. Á leiðinni heim kíkti ég á mannlífið í miðbænum. Það er sól og um 28 stiga hiti. Kippti nokkrum fínum sumarbolum með mér heim í leiðinni...
posted by Thorey @ 12:59   1 comments
laugardagur, maí 19, 2007
Betri horfur
Ég stökk aftur í dag og það gekk mun betur. Ég er þó enn hálfgert smjör og það hefur hægst aðeins á mér. Leszek var reyndar hæst ánægður með tæknina mína en nú er bara að koma hraðanum upp og fara í lengri atrennu. Ég fór 5x yfir 4m í röð á 12 skrefum í skokkskóm og er það bara allt í lagi. Ég var ekkert að hækka ránna neitt heldur var bara að vinna á mjúkri stöng og að fara í gegnum hreyfinguna með réttri tækni. Þetta var mjög mikilvæg æfing fyrir mig og gott að hún fór vel. Ég sleppti því að fara aftur til næringarfræðingsins útaf því mér fannst mikilvægara að stökkva núna. Ég nota tipsin frá honum bara síðan síðast og svo á ég jú góða vinkonu sem er í raun næringarfræðingurinn minn.

Þrátt fyrir að vera ekki nógu hröð núna er ég að bæta mig í lyftingum. Ég tók 52,5 kg í snörun í gær (bara búin að snara í 2 mánuði). Ég held að fyrst hásinarnar eru loksins að verða nothæfar get ég farið að færa kraftinn sem ég hef hlaðið upp yfir í hraða. Mér finnst reyndar það allra skemmtilegasta á æfingu að spretta svo það verður gaman hjá mér næstu vikurnar.

Dagarnir líða annars bara í rólegheitunum. Nú þar sem ég er ekkert að læra er ég bara að dunda mér í að raða myndum sem ég hef framkallað síðustu 4 ár. Næst á dagskrá er svo að koma reið á pappíra sem hafa staflast upp.

Bayer - Leverkusen, liðið mitt, er víst búið að eiga rosa góðan íþrótta vetur. Fótboltinn var að klárast og enduðu þeir í 5.sæti. Körfuboltinn er kominn í play-offs og handboltastelpurnar eru líklega að verða meistarar. Einnig fengum við jú evrópumeistaratitil í stönginni. Nú eru mótin í frjálsum að fara á fullt og það verður gaman að fylgjast með krökkunum í sumar. Aldrei að vita nema einn litill íslendingur sem er að þvælast á svæðinu muni eiga gott sumar...
posted by Thorey @ 15:00   2 comments
miðvikudagur, maí 16, 2007
Góðar og slæmar fréttir
Byrjum á þeim góðu:
Ég er búin í skólanum!!!!! Á reyndar eftir að fá 2 einkunnir en ég held það hafi sloppið. Svo innan skamms mun ég fá B.s skírteinið. LOKSINS

Slæmu fréttirnar:
Er að súpa seyðið af lærdómnum á æfingum. Var jú heima í 3 vikur og stökk aðeins einu sinni. Var samt alveg að æfa vel, lyfta og hlaupa en hef nánast ekkert stokkið í heilan mánuð! Ég stökk í dag og var gjörsamlega á eyrunum. Er að reyna að segja sjálfri mér að þetta sé bara í dag og verði næst strax skárra.
Frankie Frederiks var á Íslandi og var að tala um hve mikilvægt væri að vera í námi með íþróttunum og er ég sammála því. En það er held ég þó tvennt ólíkt að vera í námi í einu landi og að æfa í öðru. Svolítið öðruvísi aðstaða heldur en í bandarísku háskólunum þar sem nám og íþróttir eru samtvinnaðar. Ég er fegin að vera búin með þetta nám mitt og ætla núna næstu ár bara að einbeita mér að íþróttum. Hvort það skili mér meiri árangri en ella, verður bara að koma í ljós. Frankie sagði það ekki skila sér neinu meira að vera bara að æfa (enda kannski búinn að uppskera frekar mikið...)

Ég fann mjög lítið til í dag í líkamanum. Öxlin pínu aum en hásinarnar svo miklu betri að ég er í skýjunum yfir því. Nú er bara að ná upp tækninni aftur og þá verð ég jákvæð á ný.
posted by Thorey @ 11:37   4 comments
Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile