the
 
the
þriðjudagur, janúar 27, 2004
Fyrsti danstíminn minn var í gærkvöldi. Við lærðum að dansa Merengue og fékk ég að dansa við sveitta, illa lyktandi gamla karla. Ótrúlegt en satt þá fannst mér nú samt bara gaman. Fólk er þarna komið til að læra og er alveg ófeimið við að reyna að dilla sér og bara að skemmta sér. Flestir eru komnir yfir fimmtugt en það var þó ein stelpa þarna kannski aðeins eldri en ég. Svo eignaðist ég vinkonu. Dóttir þessarar stelpu var með henni (kannski 8 ára) og tók mig í fóstur. Hún hálf límdi sig við mig svo við dilluðum okkur saman svona á milli dillinu við sveittu karlanna.

Á morgun fer ég til Erfurt til að keppa á mínu fyrsta móti tímabilsins. Ég er pínu stressuð útaf öxlinni en ég vona að hún verði í lagi. Ég var aftur í sprautu í kvöld en held þetta líti bara frekar vel út.
Um leið og ég verð búin að keppa mun ég láta mömmu og pabba vita hvernig fór og þau koma úrslitunum strax inn á síðuna mína thorey.net. Keppnin er á fimmtudagskvöld.
Ég var reyndar búin að segja ykkur að ég myndi byrja í Zweibrucken þann 30.jan en ég breytti því og hætti við þá keppni. Vildi frekar fara til Erfurt þar sem allir æfingafélagar mínir verða þar og þjálfarinn. Frekar nýtt fyrir mig að geta verið að keppa á móti erlendis með þjálfarann minn með mér svo ég ákvað að nýta mér það. Hann hefði ekki komist til Zweibrucken.
Þar til næst segji ég bara: " I belive I can fly, I belive I can touch the sky........" eins og einhver hjartaknúsarinn stinur upp.
posted by Thorey @ 23:10   0 comments
sunnudagur, janúar 25, 2004
Þetta var frekar óvenjuleg helgi hjá mér. Það var mót í höllinni bæði í gær og í dag og því lokuð fyrir okkur sem vildum æfa. Ég tók mig til og málaði herbergið. Þvílíkt puð!!! Ég byrjaði að mála loftið og þegar ég loksins kláraði 1 fermetra var ég við það að gefast upp. Ég var bara með eina rúllu og stóð á tánum til að ná upp. Veggina málaði ég í dag, eða fyrstu umferð. Mér líst satt að segja ekkert á þennan lit sem ég valdi greinilega með of miklum æðibunugangi. Mér finnst þetta vera svona andlitslitaður litur eða hálf ferskjulitaður. Ætli ég máli ekki bara aftur í sumar.

Strákarnir kepptu í dag í Dessau og gekk þeim svona misvel. Patrik Kristiansson (svíinn) fór 5,70m og vann. Annar var einhver austantjaldsmaður og þriðji Richi með 5,60. Á eftir komu svo Tim, Danny, Rens og Lars með 5,40m

Í gærkvöldi var franskur kvöldverður í boði kærasta nágrannakonunnar. Hún er um fertugt en hann um sjötugt. Pierre var á Cargo skipi í 37 ár svo hann hafði líklega ekki tíma til að fara á almennilegt kvennafar. En fínt, loksins hitti hann ástina sína og ekki verra að hafa hana í yngri kantinum.
Pierre sá um eldamennskuna. Í forrétt var andapaté með salati, og skinkubitum. Í aðallrétt Le Baeuf eða eitthvað álíka. Þetta er kjöt sem er soðið í 4 tíma uppúr heilli rauðvínsflösku. Í eftirrétt var svo Crépe de flambé. Flambé er hitað Grand marnier sem er kveikt í og svo er hellt því logandi á diskinn hjá manni.
Ég reyndi að spreyta mig aðeins í frönskunni en ég verð að segja að það gekk ekki vel. Ég lærði frönsku í 3 ár, tók alla áfangana sem voru í boði í FG og get svo varla stunið upp orði. Ég hef mér þó til afsökunar að þetta var fyrir 6 árum....
Það fyndna var að ég fór alltaf í þýska orðaforðann minn mikla til að leita að frönsku orði. Tungumálin eru öll komin í rugl í hausnum á mér.
posted by Thorey @ 21:34   0 comments
föstudagur, janúar 23, 2004
Ég keypti mér málningu á nýja herbergið mitt í íbúðinni. Ég veit ekki hvort ég valdi góðan lit en valið tók um 5 mín. Skellti mér bara á einhvert afbrigði af brúnum. Gólfið er hvítur dúkur og loftið að sjálfsögðu hvítt svo mér fannst þurfa vera eitthvert líf í veggjunum til að losna við spítafílinginn. Á morgun ætla ég svo að byrja að mála ef öxlin leyfir. Öxlin er reyndar miklu betri og hún er á góðri leið með að verða betri en ný.

Ég var að koma heim af innanhússmóti í Wuppertal þar sem Annicka Becker stökk 4,55 og vann mótið. Í 2-4.sæti voru svo Carolin Hingst, Tunde Vaazi og Nastja Rysich sem reyndar stökk 4,40 um daginn og virðist vera komin á skrið á ný eftir smá hlé á æfingum. Hún er fyrrverandi heimsmeistari innanhúss.
Hástökk kvenna vann Daniela Rath sem fór 2m mjög örugglega. Þetta var fyrsta mótið hennar og greinilegt að uppbyggingaprógrammið hefur virkað vel. Við erum með sama uppbyggingarþjálfa og mjög svipað prógramm svo vonandi það virki líka vel fyrir okkur stangarstökkvarana. Það kemur í ljós bráðum en strákarnir stökkva á sínu fyrsta móti núna á sunnudaginn í Dessau.

Vala átti reyndar að vera á þessu móti sem ég fór að horfa á og var það meðal annars ástæðan sem ég fór að horfa á. Hún gat ekki keppt útaf því að hún var að skipta um félag. Hún fór úr ÍR yfir í Breiðablik. Það hefði verið gaman að hitta hana. Við sjáumst nú samt fljótlega, tvö fyrstu mótin okkar eru þau sömu.

Mótadagskráin hjá mér er eins og stendur þessi hér:
30.jan Zweibrucken
6.feb Potsdam
22.feb Athens

Ég ætla nú að vona að þau verði fleiri!!

posted by Thorey @ 23:59   0 comments
fimmtudagur, janúar 22, 2004
Ég skráði mig í þýskunámskeið í dag. Það byrjar reyndar ekki fyrr en 26.febrúar en er til 20.júlí. Ég tók stutt próf í dag til að vera metin í hvaða áfanga ég ætti að fara. ?g má byrja í byrjendaáfanga 1b sem er nú betra en að þurfa að byrja alveg á byrjun eða í áfanga 1a. Það byrjar síðan intensivkurs 2a og 2b þann 3.maí sem ég má hoppa inní ef mér finnst ég vera að ná tökum á þýskunni (jájá það verður alveg pottþétt.... nú er átak). Til þess að mega byrja í háskóla hérna þarf ég að klára 3a og 3b og svo framhaldsáfangana 1a, 1b, 2a, 2b, 3a og 3b. Semsagt mikil vinna hjá mér framundan ef ég ætla í nám hérna.

Ég skráði mig líka í einn annan áfanga. "Lateinamerikanische Tanze: Salsa - Merengue - Bachta" Þessi áfangi er á hverju mánudagskvöldi næstu átta vikurnar. Ég hugsaði þetta sem hnetubrjótur eftir keppnishelgar og held ég að þetta verði bara ansi gaman. Allavega mælti gamla konan í skráningunum alveg eindregið með þessu......
posted by Thorey @ 23:31   0 comments
miðvikudagur, janúar 21, 2004
Þá er ég loksins komin með íbúð. Hún er rétt hjá æfingavellinum eða um 5mín á hjóli. Ég mun leigja með 2 hástökkvurum en við deilum eldhúsi og baði. Það er engin stofa heldur 3 jafn stór svefnherbergi og er hvert þeirra ágætlega stórt. Ég mundi giska á að íbúðin sé um 70 fermetrar. Mér finnst mjög fínt að leigja með öðrum það bæði gerir þetta ódýrara og skemmtilegra. Privacy fær maður líka því við erum oft á ferðalagi og sjaldan öll 3 við. Við getum flutt inn um miðja næstu viku og hlakka ég ekkert smá til.

Öxlin hefur verið að angra mig pínulítið síðustu 7 vikur en hún versnaði snögglega um daginn. Ég geri þó ráð fyrir því að hún fari að lagast núna fljótlega því ég fór í sprautu í gær. Fékk nokkrar homopatasprautur í bicepsinina og í liðamótin hjá viðbeininu og hinu beininu upp á öxlinni. Ég kom inn til lækninsins mjög róleg yfir því að vera fá þessar sprautur en svo þegar læknirinn ætlar að fara að stinga mig spyr hann hvort ég sé ekki örugglega hörð stelpa.... og fer svo að segja mér sögur af því þegar Tye Harvey (amerískur stangarstökkvari) fölnaði upp og datt niður og að einnig hafi liðið yfir Tim Lobinger. Ég bara: "nú???" "Er þetta vont?" og það kom spá panik í mig. Eftir fyrstu sprautuna varð mér svo alveg hrikalega óglatt og eftir þær allar svimaði mig töluvert. Ég hélt að það væri útaf efnunum því þetta var ekkert vont. Ég jafnaði mig nú samt mjög fljótt (1mín) en læknirinn sagði að þetta væru algjörlega sálfræðileg viðbrögð. Mér fannst frekar fyndið að finna hvernig hugurinn bregst við þrátt fyrir að vera frekar róleg á því.
posted by Thorey @ 21:18   0 comments
sunnudagur, janúar 18, 2004
Ég er búin að setja inn nýja frétt og nýjar myndir frá Suður Afríku á thorey.net
posted by Thorey @ 22:53   1 comments
Góðan daginn, góðan daginn!
Ég verð að játa að ég er smituð af bloggógeðisveirunni en þetta er í rénum og allt á réttri leið.

Ég er komin frá Suður Afríku aftur til Leverkusen. Síðasta vikan í Afríku var mjög fín. Við fórum nokkur að Góðravonarhöfða og var alveg ótrúlega fallegt þar. Gaman að sjá svona sögulegan og fjarlægan stað með eigin augum. Maður átti að sjá mörgæsir en mér tókst að sjá ekki eina einustu og var frekar svekkt með það.
Ég set myndir inn á thorey.net

Nú er bara liðið að keppnistímabilinu. Veturinn hefur verið óhugnanlega fljótur að líða. Fyrsta mótið mitt er líklega þann 30.janúr í Zweibrucken. Silja er þegar byrjuð að keppa og mín bara bætti sig á fyrsta mótinu. Til hamingju með það Silja mín :)

Húsfreyjan á heimilinu er farin að undirbúa outfittið fyrir Karnivalið í Köln sem verður um miðjan febrúar. Í þetta sinn ætlar hún að vera Tiger Lily og sýndi mér svo hluta af búningnum sem var hárspöng með Mikka Mús eyru nema mín var búin að sauma tiger formið á eyrun. Gellan er sextug!!
posted by Thorey @ 20:33   0 comments
föstudagur, janúar 09, 2004
Nu er eg komin a netkaffihus tvi netid liggur nidur a gistihusinu. Eg veit ekki hvenaer eg mun blogga alminnilega naest en nuna vil eg bara segja ad tad er allt i lagi med mig enn herna og enginn sandnegri buinn ad gera mer nokkurn hlut. Tad bidur otholinmodur thjodverji herna eftir mer svo bless i bili
Thorey
posted by Thorey @ 14:18   0 comments
þriðjudagur, janúar 06, 2004
Til hamingju með afmælið Elva og til hamingju með afmælið um daginn Elísabet. Vona að þið eigið góða 25 ára stórafmælisdaga...... var eitthvað gert? (ég held reyndar að þær lesi hvorugar bloggið mitt, þær eru ekki beint þekktar fyrir að hafa tækniáhuga og ég efast um að þær viti að blogg sé til)

Í gær var bara rigning en ég var svosum fegin, enda frá Íslandi. Þetta segja strákarnir alltaf við mig.. "enda frá Íslandi". Mér finnst fiskur góður... enda ertu frá Íslandi. Ég brenn þótt ég noti vörn nr 20...enda ertu frá Íslandi. Ég er með hvalveiðum.... enda ertu frá Íslandi. Hrikalega er gott að fá rigninguna....enda ertu frá Íslandi. Mér er kalt....kva, ertu ekki frá Íslandi!!!

Á rigningardeginum var farið í bíó. Við fórum að sjá The Lord of the Rings og var hún vægast sagt rosaleg. Mér fannst ég vera að upplifa eitthvað mjög historical þarna inni í bíóhúsinu. Þríleikurinn er eitthvað sem erfitt verður að toppa í sögu kvikmyndagerðar. Ég verð reyndar að játa eitt. Ég skildi ekki alveg endirinn. Af hverju fóru þeir, Frodo, frændinn og Gandalf á skipinu með álfunum??? Getur einhver sagt mér það?

Það sem eftir er ferðarinnar verður aðeins æft einu sinni á dag. Nú er bara verið að koma sér í form fyrir keppnistímabilið þannig að þetta verða ansi ljúfar æfingabúðir það sem eftir er. Kannksi maður geti séð eitthvað í staðinn. Eitthvað sem maður fær aldrei að gera í svona ferðum. Mig langar til að fara upp á Table mountain og ég held ég leigji mér bíl og skelli mér í leiðangur. Safarí leiðangur... alein. Nei nei það væri of sorglegt. Ég dreg með mér einhvern æfingafélagann.
posted by Thorey @ 08:31   0 comments
sunnudagur, janúar 04, 2004
Í dag er fyrsti alvöru hitadagurinn. Það er 35 stiga hiti og næstum enginn vindur og því varla líft. Einhverjum varð á að kvarta og þá var bara svarið: "þú ert í Afríku, við hverju bjóstu eiginlega" Auðvitað!!! En mér finnst frekar skrítið að hugsa til þess að ég skuli vera í Afríku....

Ég held ég verði að draga það til baka sem ég sagði síðast. Að ég sé farin að fá lit. Í dag spurði ein stelpa mig hvar liturinn minn væri og um daginn spurði Leszek mig hvort ég hafi dottið í hveitipott. "Hast du ein pot mel gefallen?" eða eitthvað álíka sagði hann á þýskunni sinni og veltist svo um af hlátri.

Í gær fórum við í göngutúr í gegnum fjöllin við ströndina og inn að Crystal Pools sem eru tveir pollar með klettum allt í kring. Nokkrir strákar úr hópnum klifruðu efst upp og stukku svo niður. Hæsti kletturinn var um 27m og tók það þá um 5 sek að koma niður. Ég þorði nú ekki fyrir mitt litla líf að reyna þetta einu sinni. Mér fannst nógu erfitt að koma mér útí pollinn til að svamla enda ískaldur!!! En þetta var mjög gaman og vorum við ansi þreytt þegar við komum loksins tilbaka eftir 5 tíma skemmtidagskrá. Á leiðinni í gegnum fjöllin (hæðirnar) sáum við apa út um allt og kærastan hans Tims Lobingers fríkaði út og vildi snúa við. Mér leist nú ekki á blikuna til að byrja með en þeir létu okkur alveg vera svo það var ekkert að óttast. Seinnipart dags var svo farið á æfingu en það er langt síðan ég hef verið svona máttlaus á æfingu. Sólin og hitinn fór alveg með mig svo ég var komin mjög snemma í rúmið í gærkvöldi.

Í dag er bara ein æfing og planið er að skreppa í bíó. Ég á reyndar að mæta á stökkæfingu kl 8 í fyrramálið svo ætli leiðin liggi ekki aftur snemma í rúmið.

Ég veit ekki mikið um sögu þessa lands. En ég hef það á tilfinningunni að hvíti maðurinn hafi tekið aðeins of mikil völd hérna. Mér finnst eins og veröldin hafi verið sköpuð fyrir heimafólkið en það hafi ekki skapað hana sjálf. Vegakerfið er mjög amerískt nema það er keyrt á vinstri vegarhelmingnum. Húsin eru jafnvel amerísk í útliti eða svona sambland af amerískum húsum og áströlskum húsum Allsstaðar er það hvítur maður sem stjórnar gistihúsum eða veitingastöðum og svarta fólkið vinnur fyrir þá. Ég veit að á mörgum stöðum er farið mjög illa með svertingjana og ástandið sé jafnvel jafn slæmt og var fyrir nokkrum áratugum í Bandaríkjunum. Mér finnst þetta mjög sorglegt. En hvað getur maður gert?
posted by Thorey @ 13:42   0 comments
föstudagur, janúar 02, 2004
Sól og sumar í Suður Afríku!!
Þá er ég loksins búin að koma mér upp internet accounti hérna og get farið að blogga og komist í samband við aðra jarðarbúa. Ég hef ekki farið á netið í viku og er bæði að fá fráhvarfseinkenni af söknuði og löngun til að koppla mig frá netvæðingunni um smá tíma.

Héðan er allt stórgott að frétta. Veðrið leikur við mann og svei mér þá ef ég er ekki bara að komast úr hvítum yfir í apotekarahvítt.
Æfingar ganga bara mjög vel og stökkvum við orðið 3svar i viku og erum farin að lengja atrennuna enda nálgast keppnistímabilið eins og óð fluga....

Gamlárskvöld var eitt það besta sem ég hef lifað. Ég hef einhvern vegin aldrei skemmt mér vel þetta kvöld en ég verð að segja að þetta sló öllu við. Við fórum á einhvern skemmtistað við ströndina í Cape Town og var þar dansað til kl 3 um nóttina. Oscar Jansson, sænskur stangarstökkvari, rakst á Bono!!! Hvar var ég þá??? Ég veit ekki hvort hann var inni á staðnum en allavega þá hitti Oscar hann fyrir utan og tók mynd af sér með honum.

Jæja ég þarf að fara aftur á æfingu núna en ég reyni að koma hér oftar inn með einhverjar merkilegar fréttir.

Þórey
posted by Thorey @ 13:41   0 comments
Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile