the
 
the
sunnudagur, janúar 04, 2004
Í dag er fyrsti alvöru hitadagurinn. Það er 35 stiga hiti og næstum enginn vindur og því varla líft. Einhverjum varð á að kvarta og þá var bara svarið: "þú ert í Afríku, við hverju bjóstu eiginlega" Auðvitað!!! En mér finnst frekar skrítið að hugsa til þess að ég skuli vera í Afríku....

Ég held ég verði að draga það til baka sem ég sagði síðast. Að ég sé farin að fá lit. Í dag spurði ein stelpa mig hvar liturinn minn væri og um daginn spurði Leszek mig hvort ég hafi dottið í hveitipott. "Hast du ein pot mel gefallen?" eða eitthvað álíka sagði hann á þýskunni sinni og veltist svo um af hlátri.

Í gær fórum við í göngutúr í gegnum fjöllin við ströndina og inn að Crystal Pools sem eru tveir pollar með klettum allt í kring. Nokkrir strákar úr hópnum klifruðu efst upp og stukku svo niður. Hæsti kletturinn var um 27m og tók það þá um 5 sek að koma niður. Ég þorði nú ekki fyrir mitt litla líf að reyna þetta einu sinni. Mér fannst nógu erfitt að koma mér útí pollinn til að svamla enda ískaldur!!! En þetta var mjög gaman og vorum við ansi þreytt þegar við komum loksins tilbaka eftir 5 tíma skemmtidagskrá. Á leiðinni í gegnum fjöllin (hæðirnar) sáum við apa út um allt og kærastan hans Tims Lobingers fríkaði út og vildi snúa við. Mér leist nú ekki á blikuna til að byrja með en þeir létu okkur alveg vera svo það var ekkert að óttast. Seinnipart dags var svo farið á æfingu en það er langt síðan ég hef verið svona máttlaus á æfingu. Sólin og hitinn fór alveg með mig svo ég var komin mjög snemma í rúmið í gærkvöldi.

Í dag er bara ein æfing og planið er að skreppa í bíó. Ég á reyndar að mæta á stökkæfingu kl 8 í fyrramálið svo ætli leiðin liggi ekki aftur snemma í rúmið.

Ég veit ekki mikið um sögu þessa lands. En ég hef það á tilfinningunni að hvíti maðurinn hafi tekið aðeins of mikil völd hérna. Mér finnst eins og veröldin hafi verið sköpuð fyrir heimafólkið en það hafi ekki skapað hana sjálf. Vegakerfið er mjög amerískt nema það er keyrt á vinstri vegarhelmingnum. Húsin eru jafnvel amerísk í útliti eða svona sambland af amerískum húsum og áströlskum húsum Allsstaðar er það hvítur maður sem stjórnar gistihúsum eða veitingastöðum og svarta fólkið vinnur fyrir þá. Ég veit að á mörgum stöðum er farið mjög illa með svertingjana og ástandið sé jafnvel jafn slæmt og var fyrir nokkrum áratugum í Bandaríkjunum. Mér finnst þetta mjög sorglegt. En hvað getur maður gert?
posted by Thorey @ 13:42  

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile