the
 
the
laugardagur, ágúst 09, 2008
Fréttir og myndir
Nýjar fréttir og myndir eru á thorey.net

Takk kærlega fyrir kommentin ykkar.
posted by Thorey @ 01:38   11 comments
sunnudagur, ágúst 03, 2008
Smá laumuskot
Langar bara að deila því með ykkur örstutt að stökkæfingin í dag gekk loksins VEL. Ég stökk á 12 skrefum í gaddaskokkskónum mínum og fór 4,30. Hæsta sem ég hef farið á æfingu í 3 ár held ég... og það á stuttri atrennu. Þetta staðfestir tilfinninguna mína um að formið sé loksins að detta inn og hver veit nema ég nái að toppa mót síðustu 3ja ára í Pekíng.
posted by Thorey @ 16:53   13 comments
Viðtal í 24 stundum - Leiðrétting
Í gær birtist viðtal við Rögnu, Ragnheiði og mig útaf Ólympíuleikunum. Þar stóð að við værum allar bindisdismenn á áfengi og tóbak en í mínu tilfelli er það ekki rétt. Jú hörð bindisdismanneskja er ég á tóbak en áfengi drekk ég mjög í hófi en smakka þó. Rauðvín með steik er nánast möst.. Einnig fæ ég mér alveg bjór stundum. Í gær fékk ég mér t.d einn Kölsch (0,2l) með matnum á veitingastað sem við Gummi vorum á.

Einnig vil ég taka fram að ég hugsa EKKI á hverri æfingu að mig langi til að hætta! Skil ekki alveg hvar fréttakonan fann þá setningu hjá mér. Held ég hafi frekar sagt að auðvitað komi það fyrir að maður hugsi það en aldrei af alvöru. Mér finnst það einfaldlega of mikil forréttindi að vera íþróttamaður að ég vil ekki hætta. Það er nú líklega þessvegna sem ég er enn að og ekki löngu hætt. Ég kvíði mjög fyrir nýjum kafla í vinnu í haust. Sitja allan daginn inni á skrifstofu! Úff.

Ég er búin að vera lengi að í íþróttum og að hætta er eitthvað sem ég get varla hugsað mér. Ég mun þessvegna aldrei hætta alveg þótt það komi auðvitað að því að ég nái lágmörkum á stórmót ekki lengur. Fyrst og fremst vantar líkamanum mínum smá hvíld eftir þetta keppnistímabil og mun ég gefa honum það.

En nú er stórt verkefni framundan og ekki tími til að tala um að hætta eða hætta ekki. Nú verður bara algjör fókus næstu vikur. Síðasta stökkæfingin með þjálfaranum mínum, Leszek, er á eftir og svo flýg ég á mánudag. Í Japan mun ég þó ná tveimur stökkæfingum með Gumma fyrir undankeppnina. Eftir æfingu í dag ætla ég að þvo þvott og byrja að pakka.

Ég held ég ætti að nota thorey.net á meðan ég er úti en mér finnst bara leiðinlegra að nota þá síðu af því að það er ekki hægt að kommenta. Þætti voðalega gaman að fá komment eða email frá ykkur. Gætuð alveg kommentað hér þótt þið séuð að lesa frétt á thorey.net. Einnig er emailið mitt thorey@thorey.net

Það er bannað að flytja fréttir af einhverjum öðrum en sjálfum sér á bloggsíðum þegar ÓL stendur yfir. Þessvegna mun ég bara tala um sjálfa mig þegar ég er úti. Þið vitið þá allavega afhverju ég er svona sjálfhverf..

Jæja hafið það sem allra best og við heyrumst næst í Japan.
posted by Thorey @ 06:49   0 comments
laugardagur, ágúst 02, 2008


posted by Thorey @ 18:36   0 comments
föstudagur, ágúst 01, 2008
Styttist í óðum í ÓL
Í dag er aðeins vika í opnunarhátíð Ólympíuleikanna! Finnst ótrúlegt hvað þetta er búið að vera fljótt að líða og ég væri svo til í að það væri ennþá ár í leikana... og sinarnar væru í lagi. Finnst mér vanta aðeins meiri tíma til að koma mér í betri hæðir. Þó gæti eins verið að það hefði ekkert uppá sig. En allavega, formið er þó á uppleið og ég finn með hverju mótinu núna að öryggið eykst og ég fer á stífari stangir. Í Póllandi í fyrradag fór ég 4,15 í fyrstu og 4,30 einnig létt í fyrstu en svo kom að 4,40 og enn einu sinni rétt felli ég. Þetta er spurning um sekúndubrot sem ég þarf að fara meira afturábak á stönginni en einhverra hluta vegna, sama hvað ég reyni að hugsa það, þá vill hugurinn ekki framkvæma þetta litla atriði. En eins og ég segi er ég orðin ánægð með atrennuna og uppstökkið er orðið betra (var oft að kikna í hnénu framan að sumri) og stökkin farin að fljóta í gegn án þess að ég þurfi að pína hausinn á mér fyrir hvert stökk. Ég skal ná þessu auka sekúndubroti sem þarf til að fara yfir ránna í Pekíng.

Þegar ég lenti i Köln í gær fór ég beint til Düsseldorf í sprautu á sinina enn einu sinni og vona ég að þetta haldist núna nógu gott fyrir leikana. Ég verð að æfa á þetta á fullu næstu daga til að geta haldið formi og helst bætt það. Er að spá í að setja æfingaprógramm mitt 2ja næstu vikna á thorey.net til að leyfa ykkur að kíkja á það. Fyrir síðustu leika setti ég matardagsskránna sem sló svo heldur betur í gegn :) Æfingaprógrammið er þó auðvitað ekkert heavy dæmi þ.s mótið nálgast og ferskleikinn er í fyrirrúmi.

Gummi er kominn til mín og við höldum til Japan á mánudaginn. Úff bara helgin eftir og svo er þetta allt að skella á. Hann fer þó heim 13.8 eða daginn sem ég fer til Pekíng.
posted by Thorey @ 16:20   2 comments
Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile