the
 
the
þriðjudagur, febrúar 28, 2006
OJ

Ég er að drepast í maganum. Ótrúlega skrítið, ég borðaði súpu í tæknigarði kl 4 í gær og hálftíma seinna varð mér þvílíkt óglatt. Dröslaðist þó á æfingu en fór mjög fljótlega heim og var þá komin með hita. Er búin að liggja dauð upp í rúmi síðan. Borða ekki í tæknigarði á næstunni!!

Annars er ég eiginlega búin að ákveða mig í sambandi við öxlina. Læt ykkur vita innan skamms.
posted by Thorey @ 11:36   1 comments
sunnudagur, febrúar 26, 2006
Vá liðin vika frá síðustu færslu..

Tíminn líður svakalega hratt þegar maður hefur nóg að gera. Höfuðið liggur í bleyti bæði vegna námsin og útaf öxlinni. Dagarnir eru orðnir þannig að ég fer að heiman kl átta og kem heim seint um kvöld, milli níu og miðnættis. Enda er hálfgjört crash í gangi núna, ligg bara í leti upp í rúmi og nenni ekki að gera neitt.

Var í brúðkaupi í gær og skemmti mér alveg svakalega vel. Svana gömul vinkona mín úr fimleikunum var að gifta sig. Þetta var nú held ég bara eitt skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef komið í enda skemmtikraftarnir ekki af verri endanum. Páll Rósinkrans, Bubbi Morthens og Í svörtum fötum!! Gerist það betra?? Held það verði erfitt að toppa svona dæmi.
Við Nína og Eva Lind kíktum svo á Óliver en orðnar mjög þreyttar enda byrjaði prógrammið kl hálf fimm.

Hér erum við Hildur E, Eva Lind, Elva og Nína

posted by Thorey @ 14:47   3 comments
sunnudagur, febrúar 19, 2006
Eurovision

Ég hef svosum ekki mikið að segja um keppnina nema mér fannst Regína geggjuð og Silvía Nótt fyndin.

En að öðru í sambandi við keppnina. Símakosningin. 99 kr símtalið og yfir hundrað þúsund símtöl sem bárust. Þetta eru semsagt yfir 10 milljónum sem koma í kassa símfyrirtækja á einu kvöldi. Hvernig væri að láta ágóðan af svona kvöldi renna til góðra málefna? Ég hef stundum séð svona söngkeppnir úti og þá hefur ágóðinn runnið á góðan stað frekar en í vasa ríkra manna. Finnst hálf sorglegt að fólk sé tilbúið til að hringja allt að fimm sinnum inn og án þess að hugsa hverjum verið er að borga. Ég mundi pottþétt nýta öll mín fimm atkvæði ef einhver sem virkilega þyrfti á peningunum að halda fengi þá.
posted by Thorey @ 11:34   11 comments
fimmtudagur, febrúar 16, 2006
Staðan

Ég hitti lækninn minn í gær og hann sagði að ég ætti ekki að fara í aðgerða á þessarri stundu. Ég eigi bara að styrkja öxlina ofur vel og sjá hvort það dugi ekki. Ef ég fer úr lið þá fer ég bara úr lið og ég fer þá í skurð. Það er semsagt góður möguleiki á að þetta jafni sig bara með styrktaræfingunum og allt verði í gúddí.

Ég heyrði reyndar örstutt í Tim í gær og hann er búinn að redda mér færasta axlarskurðlækninum í Þýskalandi. Ekkert minna takk! Þetta er frakki og getur gert svona aðgerð án þess að endurhæfing taki marga marga mánuði. Ég gæti því skellt mér bara undir hnífinn og látið gera við þetta í eitt skipti fyrir öll.

En svo koma aftur sprautumeðferðir til greina en það er alltaf spurning hvað svoleiðis virki vel á eitthvað sem er rifið. Vinur minn frá Kóreu sagði mér frá þeirri meðferð og kom hann mér í samband við þann lækni.
Þjálfari Silju er svo að tala við annan lækni sem er með svipaðar sprautumeðferðir. Hann er að kanna þetta allt saman og er að athuga hvað gæti verið best fyrir mig.

Ég er semsagt bara með höfuðið í bleyti milli þess sem ég reyni að læra (og margir aðrir líka :) ).

Ég hef komist að einu í gegnum þessi meiðsli mín. Ég vissi það reyndar fyrir en ekki svona svart á hvítu. Ég á alveg ótrúlega gott fólk að allsstaðar úr heiminum sem er tilbúið til að leita að lausnum fyrir mig og hjálpa mér að komast aftur sem fyrst á brautina. Ég er jafnvel búin að fá skilaboð frá keppinautum mínum, t.d Monicu Pyrek, sem segjast sakna mín á mótunum sem eru í gangi núna og búið var að bjóða mér á.

Svo á maður auðvitað góða vini og fjölskyldu hérna heima sem styðja við mig og þykir mér rosalega vænt um það.

Þetta mun semsagt verða allt í lagi :)
posted by Thorey @ 12:20   5 comments
þriðjudagur, febrúar 14, 2006
Merkisdagur

Albert bróðir minn er hvorki meira né minna en 34 ára í dag!! Innilega til hamingju með afmælið karlinn minn :)
posted by Thorey @ 21:15   2 comments
Smá léttleiki

Ég verð að deila pínu litlu með ykkur. Ég er búin að vera að hlægja með sjálfri mér i allan dag og var rétt sprungin úr hlátri inn í bakaríi í hádeginu. Ein.

Ég kíkti á Oliver á laugardagskvöldið og ég fékk lúðalegustu pick up línu sem ég hef heyrt á ævinni. Hún er samt svo lúðaleg að hún verður næstum því sæt. Svo var ég semsagt í hádeginu út í bakaríi og ég held að gaurinn hafi verið þar sem sagði þetta við mig. Setningin var semsagt:

"Heyrðu, hérna... hmm, má ég aðeins reyna?"

Ég var akkúrat á leiðinni út af Oliver og vinkonan þegar farin á undan svo ég var að drífa mig. Þannig að svarið mitt var einfaldlega:

"Nei"
posted by Thorey @ 14:48   2 comments
mánudagur, febrúar 13, 2006
Læknastúss

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir kommentin. Það er gott að vita af fólki þarna úti sem vill sjá mann aftur á brautinni sem fyrst.

Vikan hefur nú bara farið í að hugsa um hvað koma skal. Ég er að fara að hitta lækninn minn í dag og mun ég ræða alla þessa hluti sem ég hef verið að velta fyrir mér við hann. Kannski ég hafi einhver svör í kvöld. Svo ætla ég líka að hringja í þýska lækninn minn og spurja hann álits á þessu öllu.
posted by Thorey @ 01:00   3 comments
þriðjudagur, febrúar 07, 2006
Öxlin mín ekki góð

Ég fór semsagt í speglunina í gær og niðurstöðurnar voru frekar erfiðar. Liðbandið sem heldur kúlunni í skálinni er rifið frá og ljóst að það lagast ekki af sjálfu sér. Einnig athugaði læknirinn hvort ég fari úr lið og sú virtist raunin en þó fór ég sjálf í liðinn aftur. Þegar ég slasaði mig hefur það því líklega gerst að ég hef snúist úr lið en sjálf pompaði í hann aftur. Hann kallaði þetta áverkastig 2 af 3. Áverkastig 1 er ég með varanlegt á hinni öxlinni frá því í fimleikunum og gefur það mér því von um að geta lifað með áverkastig 2 einnig án þess að finna mikið fyrir því. Nú ef ekki, þá þarf ég aðgerð sem tekur a.m.k 6 mánuði að jafna sig á. Ég heyrði þó af undraaðgerð út í heimi sem gæti lagað svona lagað á hvorki meira né minna en 3 vikum svo ég ætla að sjálfsögðu að fara strax út í það að skoða það. Það mun þó kosta allavega hálfa milljón.... en peningar eru mér aukaatriði í þessu máli svo lengi sem ég mun getað stokkið aftur sem fyrst.
posted by Thorey @ 10:30   20 comments
sunnudagur, febrúar 05, 2006
Ávarp mitt á Íslandsmeistaramótinu í samkvæmisdönsum

Formaður DSÍ, starfsmenn, keppendur og aðrir gestir.
Til hamingju með daginn. Annar dagur Íslandsmeistaramótsins í samkvæmisdönsum fer brátt að hefjast og mér hlotnast sá mikli heiður að fá að segja hér nokkur orð.

Í dag er einu af markmiðum ykkar náð. Skipuleggjendur mótsins eru líklega flestir orðnir gráhærðir af stressi og þið keppendur góðir búnir að leggja mikið á ykkur til að vera í ykkar besta formi þessa helgi. Nú er stundin loksins runnin upp og þið standið hér öll glæsilegir fulltrúar ykkar sjálfra og félags ykkar. Sum ykkar eigið stærri markmið eins og að komast í úrslit eða jafnvel að sigra. Aðrir ætla sér að leggja land undir fót og etja kappi við erlend danspör. En hver sem markmið ykkar eru, er eitt víst, að þið eruð öll stödd HÉR í dag, í glæsilegri umgjörð Laugardalshallarinnar, og ætlið að gera ykkar besta.

Ég ætla samt að segja ykkur lítið leyndarmál. Ég hef alltaf átt þann draum að vera dansari í samkvæmisdönsum. Ég horfi alltaf aðdáunaraugum á þau danspör sem ég sé í sjónvarpinu eða á þeim uppákomum þar sem maður er svo heppinn að fá að horfa á nokkra dansa sýnda. Ég æfði nú einu sinni dans en það var þó ekki lengi. Fimleikar áttu hug minn allan á þeim tíma. Í dag er það stangarstökk en næsta íþróttagrein mun verða samkvæmisdans. Það er að segja ef ég finn mér herra sem leggur í þetta með mér.... og er hávaxnari en ég... en það er víst aukaatriði.

Ég á tvær minningar frá dansæfingum. Ætli ég hafi ekki verið svona 7-8 ára. Fyrri minningin er frá dansskóla Auðar Haralds. Í danstímanum er við okkur nemendur sagt að hrista rassinn. “Hristið svo rassinn!” og ég man að ég hugsaði: “Já, er það svona sem maður dansar, hrista rassinn og hrista líkamann..” Mér fannst það rosaleg uppgötvun. Seinni minningin er frá eina skiptinu sem ég hef slegið í gegn á dansgólfinu. Þetta var á brake tímanum og bróðir minn á kafi í slíkum pælingum alltaf heima inn í stofu. Ég ákvað að reyna að leika eitthvað af þessum töktum hans eftir og tók snúning á bakinu. Ég hef örugglega snúist í að minnsta kosti 10 hringi og kliðurinn sem fór um salinn situr ljúfur eftir í minningunni. Ringluð labbaði ég þó út og mætti aldrei aftur á æfingu.

Þið eruð þó ekki hingað komin til að hrista bara rassinn eða snúa ykkur á bakinu á gólfinu. Þið eruð komin alla leið á Íslandsmeistaramótið. Til að ná markmiðum sínum í íþróttum þarf oft mikla þolinmæði. Það þekki ég af eigin raun. Hver sigur kostar nefninlega mikið blóð, heilmikinn svita og óteljandi tár. En á endanum er hver dropi þess virði og það er einmitt á stundu sem þessarri sem veit af hverju maður leggur alla þessa vinnu á sig. Andartökin eftir gott stökk í stangastökki eða vel framkvæmd dansspor á dansgólfinu eru þau sællegustu og skemmtilegustu andartök sem maður upplifir. Þetta er bara allt svo gaman!

En þótt ég eigi ekki glæsilegan dansherra, eins og allar dömurnar hér á gólfinu, þá á ég þó stóra stöng sem ég treysti á. Ég gæti trúað því að einn af aðal mununum á stangarstökki og samkvæmisdönsum sé einmitt fólginn í herranum. Í samkvæmisdönsum er hann flott klæddur, með flottar hreyfingar og alveg voðalega sætur, en í stangarstökki er hann bara löng mjóna sem brotnar við minnsta átak. Kosturinn við minn er þó sá að ég fæ að pakka honum niður í tösku að lokinni keppni og þarf aldrei að hlusta á neitt röfl....

En eigum við ekki bara að vinda okkur í keppnina. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og góðrar skemmtunar.
Ég lýsi því hér með mótið sett.
posted by Thorey @ 16:40   12 comments
föstudagur, febrúar 03, 2006
Stöng kvenna ekki gullgrein

Ég hitti skipuleggjanda gullmótsins í Osló fyrr i vetur og sagði hann mér að stöng kvenna væri gullgrein. Ég allavega tók því þannig að greinin væri í pottinum en hann átti líklega við að hún væri bara aukagrein á nokkrum mótum. Hún hefur nú verið það svosum áður en þó aldrei í Osló. Ég er að sjálfsögðu svekkt að heyra þetta en þó vona ég að gaurinn standi við orð sín en hann sagði að mér yrði boðið til Osló.

Gullgreinarnar eru:

2006 IAAF Golden League Events

Men:
100m, 400m, 1500m, 3000/5000m, Long Jump, Javelin Throw

Women:
100m, 400m, 3000/5000m, 100m Hurdles, High Jump
posted by Thorey @ 16:11   2 comments
fimmtudagur, febrúar 02, 2006
Íslandsmeistaramótið í samkvæmisdösum

Nei ég er ekki búin að skipta um grein en mun þó hljóta þann heiður að fá að setja mótið á laugardaginn. Ég var með pínu fyrirlestur á laugardaginn inná ÍSÍ fyrir úrvalshóp unglinga í hinum ýmsu íþróttagreinum og þar var Birna Bjarnadóttir formaður DSÍ. Hún hafði svo samband við mig og spurði hvort ég væri til í að hafa smá ávarp og setja Íslandsmeistaramótið í samkvæmisdönsum. Þetta finnst mér voða spennandi og ég hlakka til að fara í höllina um laugardaginn. Oh ég væri svo til í að læra samkvæmisdansa. Alltaf verið draumur en einhvern veginn aldrei haft partner í það... hmmm Ég var reyndar búin að skrá mig á tango námskeið (ein...) í þýskalandi núna í janúar en það varð aldrei af því fyrst ég kyrrsettist á klakanum.

Jæja hálsbólgan er loksins að lagast. Mjög langt síðan ég hef fengið svona svaðalega hálsbógu en ég fékk eitthvað voða lyf sem bjargaði mér frá því að fá kvef svo ég komist nú í speglunina á mánudaginn. Ég hef því tekið það mjög rólega þessa viku og lítið æft. Vona að eftir speglunina geti farið allt á fullt sem fyrst.

Fimmtudagar eru agalegir. Er í tíma frá 8:15-9:25 og svo aftur kl 16-17... ég er þó búin að vera ofurdugleg í dag og hef setið inn á bókasafni að læra. Já ótrúlegir hlutir gerast. Ætla svo að skella mér á æfingu strax eftir tímann.

Adios
posted by Thorey @ 14:38   1 comments
Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile