the
 
the
sunnudagur, febrúar 05, 2006
Ávarp mitt á Íslandsmeistaramótinu í samkvæmisdönsum

Formaður DSÍ, starfsmenn, keppendur og aðrir gestir.
Til hamingju með daginn. Annar dagur Íslandsmeistaramótsins í samkvæmisdönsum fer brátt að hefjast og mér hlotnast sá mikli heiður að fá að segja hér nokkur orð.

Í dag er einu af markmiðum ykkar náð. Skipuleggjendur mótsins eru líklega flestir orðnir gráhærðir af stressi og þið keppendur góðir búnir að leggja mikið á ykkur til að vera í ykkar besta formi þessa helgi. Nú er stundin loksins runnin upp og þið standið hér öll glæsilegir fulltrúar ykkar sjálfra og félags ykkar. Sum ykkar eigið stærri markmið eins og að komast í úrslit eða jafnvel að sigra. Aðrir ætla sér að leggja land undir fót og etja kappi við erlend danspör. En hver sem markmið ykkar eru, er eitt víst, að þið eruð öll stödd HÉR í dag, í glæsilegri umgjörð Laugardalshallarinnar, og ætlið að gera ykkar besta.

Ég ætla samt að segja ykkur lítið leyndarmál. Ég hef alltaf átt þann draum að vera dansari í samkvæmisdönsum. Ég horfi alltaf aðdáunaraugum á þau danspör sem ég sé í sjónvarpinu eða á þeim uppákomum þar sem maður er svo heppinn að fá að horfa á nokkra dansa sýnda. Ég æfði nú einu sinni dans en það var þó ekki lengi. Fimleikar áttu hug minn allan á þeim tíma. Í dag er það stangarstökk en næsta íþróttagrein mun verða samkvæmisdans. Það er að segja ef ég finn mér herra sem leggur í þetta með mér.... og er hávaxnari en ég... en það er víst aukaatriði.

Ég á tvær minningar frá dansæfingum. Ætli ég hafi ekki verið svona 7-8 ára. Fyrri minningin er frá dansskóla Auðar Haralds. Í danstímanum er við okkur nemendur sagt að hrista rassinn. “Hristið svo rassinn!” og ég man að ég hugsaði: “Já, er það svona sem maður dansar, hrista rassinn og hrista líkamann..” Mér fannst það rosaleg uppgötvun. Seinni minningin er frá eina skiptinu sem ég hef slegið í gegn á dansgólfinu. Þetta var á brake tímanum og bróðir minn á kafi í slíkum pælingum alltaf heima inn í stofu. Ég ákvað að reyna að leika eitthvað af þessum töktum hans eftir og tók snúning á bakinu. Ég hef örugglega snúist í að minnsta kosti 10 hringi og kliðurinn sem fór um salinn situr ljúfur eftir í minningunni. Ringluð labbaði ég þó út og mætti aldrei aftur á æfingu.

Þið eruð þó ekki hingað komin til að hrista bara rassinn eða snúa ykkur á bakinu á gólfinu. Þið eruð komin alla leið á Íslandsmeistaramótið. Til að ná markmiðum sínum í íþróttum þarf oft mikla þolinmæði. Það þekki ég af eigin raun. Hver sigur kostar nefninlega mikið blóð, heilmikinn svita og óteljandi tár. En á endanum er hver dropi þess virði og það er einmitt á stundu sem þessarri sem veit af hverju maður leggur alla þessa vinnu á sig. Andartökin eftir gott stökk í stangastökki eða vel framkvæmd dansspor á dansgólfinu eru þau sællegustu og skemmtilegustu andartök sem maður upplifir. Þetta er bara allt svo gaman!

En þótt ég eigi ekki glæsilegan dansherra, eins og allar dömurnar hér á gólfinu, þá á ég þó stóra stöng sem ég treysti á. Ég gæti trúað því að einn af aðal mununum á stangarstökki og samkvæmisdönsum sé einmitt fólginn í herranum. Í samkvæmisdönsum er hann flott klæddur, með flottar hreyfingar og alveg voðalega sætur, en í stangarstökki er hann bara löng mjóna sem brotnar við minnsta átak. Kosturinn við minn er þó sá að ég fæ að pakka honum niður í tösku að lokinni keppni og þarf aldrei að hlusta á neitt röfl....

En eigum við ekki bara að vinda okkur í keppnina. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og góðrar skemmtunar.
Ég lýsi því hér með mótið sett.
posted by Thorey @ 16:40  

12 Comments:

At 5:39 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Flott hjá þér skvísa!
Vona að það hafi verið gaman!
kv
Rakelan

 
At 7:44 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Rosa flott hjá þér Þórey...haha sé þig fyrir mér í þessum snúningum að reyna að breika:)
Fjeldsted

 
At 8:42 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Skemmtilegt ávarp :)
Get ímyndað mér að þú hafir slegið í gegn með þessum orðum!

 
At 9:04 e.h., Blogger Hafdís Ósk said...

Ég sá þig alveg fyrir mér á meðan ég las þetta! Mjög vel gert og skrifað!
Fengir háa einkunn hjá mér ;)

Vona að þér gangi vel í segulómuninni á morgun, ég sé þig vonandi fljótlega!

Kveðja,

 
At 11:31 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

þetta er glæsilegt hjá þér, ég dáist að þér að geta talað fyrir framan svona marga.
kveðja Bryndís frænka

 
At 12:06 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þú varst nú alltaf efnileg í breikinu :-)...
En góð ræða hjá þér annars...
Kv. Albert

 
At 1:03 f.h., Blogger Thorey said...

Vá ekkert smá gaman að fá svona mörg komment :) Takk kærlega fyrir.

Já Albert, the brakesnilling, var ég ekki bara alveg andskoti efnileg..hehe Þú varst náttúrlega brake kóngurinn!! Heldur þú þér ekki örugglega í formi?

 
At 9:41 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Aedislegt avarp! Tek undir thad med ther ad mig dreymdi alltaf um ad vera samkvaemisdansari ;)

Kvedja,
Asdis Joh.

 
At 1:50 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hehe....formi...get ekki sagt það.
Hef reynt að minnka það að snúa mér á hausnum svona síðustu ár :-)
Þyngdarpunkturinn er eitthvað að breytast hjá manni :-(

 
At 1:54 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gleymdi að minnast á að við Guðrún fórum náttúrulega að æfa samkvæmisdansa. Gerðum það í nærri 3 ár.....!!! Var orðinn helv. góður bara. Það er nú erfiðara en maður heldur að dansa svona.

 
At 7:11 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Æ dúllan mín langaði bara að senda þér RISA ((((((((((((((KNÚÚÚÚS!!!)))))))))))
Tala við þig á morgun!
kv
Rakelan
ps
Dittó sendir líka KNÚS!!! =o)

 
At 11:23 f.h., Blogger Thorey said...

Já Albert fannst það ekkert smá gott hjá ykkur að drífa ykkur í dans. Ég mun einmitt draga gaurinn minn með mér þegar hann finnst...

Takk fyrir knúsinn Rakel, veitir ekki af nokkrum svoleiðis næstu daga

 

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile