the
 
the
miðvikudagur, maí 28, 2008
Mót nálgast
Næsta mót á að vera núna á föstudaginn í Saulheim. Ég er reyndar frekar slæm í hásininum í dag eftir ferðalag til Hollands í gær vegna fótamælinga. Ég vona ég verði orðin betri á föstudaginn aftur svo ég geti keppt.

Það var semsagt Orthopad í heimabæ Rens í gær, Sittard, og ákvað ég að nýta tækifærið og hitta hann. Hann vinnur með kínverska ÓL liðinu og á að vera voða góður. Ég þurfti að taka 2 spretti berfætt yfir mælingaplötu svo hann sæi hvernig ég beitti fótunum í átaki. Nema fyrir mig að hlaupa berfætt er dauði og er ég að finna vel fyrir því núna. Ég fékk þó allar mælingar og hann mun búa til gaddaskó úr tveimur skóm sem ég á. Annað parið eru reyndar þegar þannig skór en ónothæfir því það var ekki rétt gert. Hann mun semsagt laga þá, búa til eina í viðbót og gera ný innlegg. Hann sagði að fæturnir á mér væru mjög slæmir því liðamótin í ristinni og við hælinn eru svo laus að það skapa mikið álag á hásinarnar. Hann ætlaði að redda þessu með einhverjum voða flóknum innleggjum.

Af Þýskalandi er annars það að frétta að bensínverðið er jú að tröll ríða öllu hérna eins og heima. Í fyrstu fjórum mánuðum ársins jókst ásókn í lestina um hvorki meira né minna en 20 milljón manns! Fólk hjólar líka miklu meira. Flugfélög eru farin að plokka peninga í allskonar aukakostnað eins og að fá að tékka inn tösku kostar 5 evrur og ef maður gleymir að panta fyrirfram fyrir töskuna sem þú ætlar að tékka inn þarftu að borga 10 evrur. Ef maður er með "heavy weight" tösku þarf ekki bara að borga yfirvikt heldur aukagjald fyrir að setja hana á sérstakt bretti.

Um daginn náðist sem betur fer maður sem kastaði 6kg stein niður af brú fyrir ofan hraðbrautina með þeim afleiðingum að kona sem sat í farþegasæti í bíl með manninum sínum sem keyrði og 2 börnum sem sátu aftur í dó þegar steinninn lenti á henni. Fjölskyldan var á leiðinni heim úr fríi.

Mjólkurbændur eru hérna í verkfalli vegna verðstríðs matvörubúða og er verðið orðið svo lágt núna að mjólkurbændur hafa varla efni á kostnaði sínum. Fréttir sýna bændur hella mjólkinni niður og fólk flykkjast í búðir að hlaða sig upp af mjólk.

Natasha Kambush, stelpan sem slapp útúr dyflissu ókunnugs manns þ.s hún var lokuð inni í 7 ár, byrjaði í dag með eigin spjallþátt í austurríska sjónvarpinu. Stuttu eftir að hún slapp hún sagðist hún vilja verða blaðamaður (journalist - hvert er íslenska orðið yfir það aftur? Þ.e orðið sem nær bæði yfir blöð og sjónvarp?)

Svo sá ég þátt í sjónvarpinu í kvöld um tvítugan strák sem missti báða handleggina í slysi fyrir þremur árum. Fyrirtækið Otto Bock (Össur Austurríkis) er búið að finna upp handlegg sem er stýrður af hugsunum hans og hann getur fundið snertingu með honum. Þetta er reyndar ekki fullklárað og segja þeir það muni taka um 3 ár í viðbót við að fullklára verkefnið. M.a vegur handleggurinn í dag 6kg en þarf að komast niður í a.m.k 3kg. Áður en hann fékk að prófa þennan handlegg fór hann í aðgerð þ.s einhverjar taugar úr heilanum og voru lengdar (skildi ekki alveg) niður í brjóstvöðva þ.s hann er ekki með axlarlið. Á brjóstvöðvann eru svo fullt af nemum og dóti og hann getur stjórnað hreyfingunni með huganum. Magnað!

Þetta var útvarp thorey, fréttir verða sagðar næst þegar hana langar til.

Góða nótt
posted by Thorey @ 21:55  

2 Comments:

At 8:15 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gangi þér vel á morgun! Skemmtilegt blogg gaman að fá svona fréttir úr öðrum löndum (o:

 
At 6:40 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mjög skemmtilegar fréttir :o) Líst vel á fréttaþjónustu Þóreyjar ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile