the
 
the
fimmtudagur, janúar 31, 2008
jæja
Pistillinn hér að neðan var búinn til fyrir síðu Liðs Hafnarfjarðar og ég skellti honum á bloggið mitt bara svona í leiðinni. Vona að einhverjir hafi fengið spark í rassinn en vona jafnframt að enginn sé byrjaður að æfa 5x á dag :)
Jú allt er gott í hófi og stundum, þótt ótrúlegt megi virðast, er minna = meira.

Það settist í mig einhver kveffjandi í fyrradag og er ég búin að vera vel slöpp síðan. Tók þá ákvörðun að hafa hægt um mig þessa vikuna og stekk því ekkert meira. Stökk reyndar á mánudaginn og gekk það mjög vel. Kom reyndar smá bakslag í hásinina eftir þá æfingu en ég vil kenna kvefinu um. Það er jú oft þannig að þegar líkaminn er með einhvern vírus eða bakteríu verða veiku hlutirnir viðkvæmari. Ég fer því ofurvarlega þessa dagnana og það gerðist meira að segja í fyrsta sinn á æfinni að ég var bara heima með kvef í gær.

Í dag er fyrsti dagurinn i Karnivali og því allt lokað. Fólk flykkist núna í bæinn í allskyns búningum með bjór í annarri og myndavél í hinni. Ég ætti eiginlega að redda nokkrum Karnival mannlífsmyndum til að sýna ykkur. Við erum að tala um sextugar ömmur í tigerbúning..
posted by Thorey @ 10:41   0 comments
sunnudagur, janúar 27, 2008
Þú uppskerð eins og þú sáir
Hæfileiki einstaklingsins í viðkomandi íþrótt er eitthvað sem gott er að hafa til að ná árangri. Hugarfar og rétt beiting hugans á æfingu eða í keppni er annað sem verður að hafa ef stefnt er á toppinn. En svo aftur spurningin, hvar skilgreinum við toppinn?
Að mínu mati eru stærstu sigurvegararnir þeir sem upplifa það að sigra sjálfan sig, sem geta eitthvað sem þeir ekki gátu áður, þeir sem komast yfir hindranir og þeir sem leggja sig alltaf 100% fram. Stundum eru verðlaunin gullpeningur um hálsinn, stundum er það stórt bros í eigin andliti.

Það eru margir sem halda að það sé nóg að hafa hæfileikann til að ná langt. Trassa jafnvel æfingar og leggja ekki hart að sér á æfingum eða í keppnum. En slíkt hugarfar kemur hæfileikaríkum íþróttamanni ekki langt, þeir verða ekki góðir lengi. Síðan eru aðrir sem hafa litla hæfileika en mjög mikinn vilja og áhuga á að verða bestir, þessir einstaklingar skara jafnvel framúr.

Hugarfarið skiptir miklu máli í íþróttaiðkun líkt og mörgum öðrum hlutum í lífinu. Að ætla sér að verða bestur þýðir að það þurfi að leggja hart að sér, klára hverja æfingu með fullri áreynslu, hlusta á þjálfarann og treysta því sem hann er að segja, setja sér lítil og stór markmið eins og að ætla sér að verða betri í dag en í gær eða að ná í gullið næst eftir að hafa krækt í silfur. Þannig er hægt að hlaða ofan á getu sína smátt og smátt þar til stóra markmiðinu er náð. Þá er byrjað upp á nýtt, ný markmið sett og enn meira lagt á sig til að ná því.

Þegar kemur að því að keppa vilja taugarnar oft taka stjórnina af íþróttamanninum og þeim árangri sem búist hafði verið við er langt í frá náð. Það þekkja allir íþróttamenn neikvæðar tilfinningar sem ásækja hugann í keppni. Galdurinn er að kunna að tækla þær líkt og það þarf að tækla andstæðinginn. Björn Daehlie, margfaldur Ólympiumeistari í skíðagöngu, sagði einu sinni að fyrir keppni þarf hann alltaf að hafa tvö rúm í herberginu sínu því hann svitnar svo mikið útaf stressi á nóttunni að hann þarf að skipta um rúm. Þetta er gott dæmi um íþróttamann jafnvel í fremstu röð sem þjáist af stressi og kvíða fyrir mikilvæga keppni. Það er semsagt eðlilegt að hafa þessar hugsanir og það þarf að kunna að sigrast á þeim og það er hægt að læra.

Á ný liðnu Evrópumeistaramóti í handbolta voru þjóðverjar með aukaþjálfara í liðinu. Sá þjálfari sá um svokallaða “hvatningaþjálfun”. Hann var einungis til staðar til að hjálpa leikmönnunum að hugsa jákvætt. Það er vísindalega sannað að þegar íþróttamaður hugsar jákvætt hefur hann meiri kraft. Þar af leiðandi getur hann nýtt betur þá vinnu sem hann hefur lagt í æfingar í keppninni sjálfri.

Það er ljóst að ef ná skal árangri þarf að leggja hart að sér. Það þarf að borða hollan mat, sofa mikið, trúa alltaf á sjálfan sig og hugsa jákvætt. Það þarf að tapa til að geta sigrað og það þarf að bera ábyrgð á eigin frammistöðu í slæmu gengi. Þjálfari er til staðar til að aðstoða íþróttamannin til að ná á toppinn, hann býr ekki til meistara með eigin höndum. Það er á valdi íþróttamannsins að gera það sem hann segir og örlítið meira en það. Eftir slæmt gengi þarf að nota viljann að vopni og nýta mótlætið í styrk og reynslu. Allir hrasa, það kemur alltaf hindrun í veginn, en það eru aðeins þeir sterku og viljamestu sem standa upp og uppskera það að komast á toppinn.
posted by Thorey @ 22:08   10 comments
föstudagur, janúar 25, 2008
Rólegheit
Þá er maður dottinn í sömu rólegheit og fyrir jólafrí. Þá meina ég rólegheit fyrir utan íþróttavöllinn. Ég æfi reyndar bara 1x á dag núna til að hlífa kálfanum aðeins og til að vera frískari á tækniæfingunum þannig að rólegheitin er reyndar mun meiri núna. Nú tek ég tímabil þar sem ég æfi minna en einblíni á tæknina. Frítími vikunnar er því búinn að fara í hangs, eldamennsku, hangs, tiltekt, lestur, hangs og smá sjónvarp. Reyndar er handboltakeppnin búin að halda mér frekar upptekni mér til mikillar ánægju.

En tækniæfingin fór vel í dag. Var aftur á 12 skrefum og var að stökkva fínt. Mun fara í fulla atrennu, 16 skref, í næstu viku.

Strákarnir eru allir að keppa um helgina og Silke keppir einnig í kvöld. Það verður spennandi að sjá hvernig það allt saman fer og hvort skeggið hans Leszek muni fjúka. Hann byrjaði að safna yfirvararskeggi í haust og segist raka það af þegar einhver setur met. Ég held samt að það muni vera í mínum verkahring að sjá til þess að skeggið fari af ;)

Ykkur Yvonne Buschbaum aðdáendum get ég sagt það að hún heitir núna Balian og er byrjuð á hormónameðferðinni. Nafnið tók hún úr myndinni "Konungur himinsins" (held hún heiti það) en þar hét einn karakter Balian frá Ibelin. Hún segir á síðunni leichtatletik.de: "Þetta hefur sérstaka þýðingu fyrir mig. Þetta fjallar um fólk sem tapar öllu og heldur af stað í ferðalag til að finna sjálft sig og hvert hlutverk þeirra í lífinu er."
Hún segist meðal annars alltaf hafa liðið eins og hún væri karlmaður og hafi alltaf átt í ástarsamböndum með gagnkynhneigðum konum. Hún var flokkuð með lesbískum konum en í þeirri skúffu átti hún ekki heima. Það hefur alltaf eitthvað ekki passað í hennar lífi og núna ætlar hún að láta lífsdraum sinn rætast. Hún gerir sér grein fyrir því að það séu ekki allir sem eru sammála henni að fara útí þetta en hún segist vera að þessu fyrir sig og fer sínar eigin leiðir í lífinu.

Er það ekki einmitt málið? Maður lifir einu sinni og auðvitað á maður að fara sínar leiðir og gera það sem hjartað segir manni.
posted by Thorey @ 17:21   0 comments
miðvikudagur, janúar 23, 2008
Á ný í Leverkusen
Ferðalagið gekk með óhemjum vel. Áður fyrr lenti ég alltaf í endalausum uppákomum eins og aðrar vinkonur mínar en það er eins og þetta hafi bara elst af mér (svo segiði að það sé slæmt að eldast). Allavega gekk allt eins og smurt og ég hitti jafnvel fólk úr fortíðinn sem ég hef ekki séð í meira en 10 ár. Gaman að því.

Þótt ég sakni ykkar heima þá verð ég að játa það að það var gott að koma í íbúðina MÍNA. Nóg af plássi fyrir MIG :) Það lá við ég fengi víðáttubrjálaði með dótið mitt þegar ég kom hingað. Bý semsagt frekar þröngt þegar ég er heima. Mér finnst það reyndar bara fínt en finn síðan greinilega hvað það er gott að hafa pláss þegar ég fæ það.

Það lítur út fyrir að jólafríið hafi bara farið vel í mig. Ég var semsagt í 7 vikur heima en tókst alveg að æfa frekar vel bara. Auðvitað mun minna en ég hafði gert áður en ég kom heim þar sem ég tognaði mjög létt í kálfanum rétt áður en ég fór og gat því ekki æft jafn mikið. Ég jafnaði mig þó og fór að geta tekið meira á því, lyfti vel og hljóp í sundi og synti ágætlega. Drillaði svo bara með stöngina og gerði smáæfingar og þrek. Stökk semsagt lítið sem ekkert (1x á 8 skrefum) og var fyrsta stökkæfingin í dag með Leszek. Ég skellti mér beint í 12 skrefin, þangað sem ég var komin þegar ég fór heim, og það gekk líka svona rosalega vel. Leszek átti varla til orð, steinhissa á þessu. Ég var semsagt að gera tæknilegu hlutina betur en fyrir jólafrí. Ég tel ástæðuna vera þá að ég var að hjálpa guttum heima að stökkva og var því alltaf með hugann við tæknilegu atriðin. Einnig er ég ekki í sama æfingaálagi og þá og tel mig hafa bara verið orðna of þreytta þarna í nóvember.

Allavega, þetta byrjar vel og dagurinn verið mjög góður. Ég er mjög sátt við að vera komin á fullt og hlakka til að stökkva meira.
posted by Thorey @ 14:38   4 comments
sunnudagur, janúar 20, 2008
Lið Hafnarfjarðar
Til er orðið Lið Hafnarfjarðar. Helsta íþróttafólk Hafnarfjarðar kemur saman og býr til lið. Við bloggum öllsömul um okkar gengi og má nú lesa færslur eftir Loga, Ásgeir Örn og Helenu Sverrisd eftir síðustu leiki þeirra. Endilega kíkið við hér

Síðasti dagurinn minn á Íslandi í bili og það er að sjálfsögðu nóg að gera í dag. Fyrir það fyrsta er mót inn í Laugardalshöll og svo þarf auðvitað að pakka og ganga frá endalaust mörgum hlutum. Svo er það leikurinn við Frakka sem verður gaman að horfa á. Hrikalega var fyrri hálfleikur flottur hjá þeim í gær. Vona að maður fái að sjá meira af slíkum leik.

Jæja ætla að fara að byrja á einhverju. Heyri í ykkur þegar ég er komin út.
posted by Thorey @ 09:47   2 comments
miðvikudagur, janúar 16, 2008
Ólympíublogg
Jæja þá hefur bæst við enn ein vefsíða fyrir bloggrúntinn ykkar. Ólympíuhópur FRÍ (Silja, Óðinn, Beggi, Ásdís og ég) munum halda úti vefsíðu til að fylgjast með hvoru öðru í undirbúninginum og til að leyfa ykkur að fylgjast betur með okkur. Síðan er hér
Endilega verið svo dugleg að kommenta.

Annars ekkert nýtt að frétta. Vésteinn er á fullu að finna mót handa mér en það er voðalega lítið um innanhúss mót í Evrópunni. En eins og ég sagði er það í lagi því þetta verður jú bara æfingatímabil hjá mér.

Æfingar ganga annars bara þokkalega. Hef verið dugleg að lyfta síðustu vikur og er öll að styrkjast. Ég er byrjuð á hrikalegum heilsukúr og er að taka ýmis jurtameðul allan daginn. Við erum sko að tala um grænar klósettheimsóknir... :)
Tek núna duft sem heitir Green Phyto og á að gefa manni orku og svo Chloryllu sem er blaðgræna og á að auka súrefnisflutning og þar með endurhæfingu líkamans. Veitir nú ekki af því. Chloryllan á meira að segja að eyða svita- tá og andfýlu.

Mót um helgina í höllinni en ég mun ekki taka þátt í því. Hvet alla til að mæta og kíkja á flottu og efnilegu krakkana sem verða í fremstu röð eftir nokkur ár.
posted by Thorey @ 22:48   0 comments
sunnudagur, janúar 13, 2008
Nýr umboðsmaður
Um áramótin skipti ég um umboðsmann og er ég komin aftur til Vésteins Hafsteinssonar. Síðustu 4 ár hef ég unnið með Marc Osenberg sem ég hef verið svona mis ánægð með. Hann bjóð þó í Leverkusen og voru því öll samskipti auðveldari. Ég vann þar á undan með Vésteini og var alltaf ánægð með hann og saknaði eftir skiptin. Ég er því mjög ánægð með að vera farin að vinna með honum aftur.

Ég er enn stödd á Íslandi. Fer út þann 21.janúar og mun voða lítið koma heim fyrr en næsta haust. Búið er að plana æfingabúðir í Tenerife í mars í 2 vikur og svo þar á eftir 2 vikur í Suður Afríku. Ég mun líklega keppa á nokkrum mótum núna innahúss en þó munu allar áherslur liggja á sumrinu. Þ.e innanhússtímabilið mun vera meira sem æfing en alvarleiki enda þarf ég að spara keppnisskóna sem mest vegna fótavandamála. Mig langar þó að reyna að keppa á Meistaramóti Íslands þann 8.-9. febrúar ásamt nokkrum mótum útí heimi. Þó er ekkert ákveðið í þeim efnum.
posted by Thorey @ 11:42   0 comments
þriðjudagur, janúar 08, 2008
Gleðilegt ár
Komiði sæl...
Það er víst komið nýtt ár og ég var að spá í að gera smá samantekt frá árinu 2007 en ég veit ekki hvort ég láti nokkuð verða að því. Það gerðist svosum ekkert margir merkilegir hlutir í fyrra. Það sem einkenndi árið hjá mér voru hásinaverkir frá byrjun og fram í september og því voru æfingar og keppnir frekar pína heldur en að hafa gaman að því. Ég ákvað því að fara til Svíþjóðar í Cortison sprautu og taka sjénsinn á að verða verkjalaus eða enda ferilinn. Enn sem komið er er ég verkjalaus :)

Það fór því lítið fyrir keppnum og árangri hjá mér. Ég fór þó 4,40 á fyrsta mótinu mínu um sumarið og náði lágmarki fyrir HM í Osaka sem var í ágúst og fyrir Ólympíuleikana í Pekíng á þessu nýja ári. HM fór ekki nógu vel, stökk 4,35 og lenti í 19.sæti. Þegar ég lít tilbaka yfir árið er ég nánast stolt af sjálfri mér fyrir að hafa klárað þetta. Gafst aldrei upp þótt hvorug löppin á mér hafi verið að virka. Held það sé sigur ársins hjá mér.

Gummi var hjá mér úti mest allt sumarið og áttum við frábæra tíma saman bæði þá og um páskana í æfingabúðunum í Suður Afríku. Það er svo miklu skemmtilegra og auðveldara að standa í öllum þessum æfingum, sprautumeðferðum og öllu öðru í kringum íþróttina með svona klett við hliðina á sér. Veit ekki hvort ég hefði getað þetta án hans. Svo er ekki verra að vera skotin í klettinum :)

Ég kláraði B.s námið mitt í verkfræðinni síðastliðið vor. Það var stór uppbót fyrir frekar slappt frjálsíþróttaár.

Framundan er stórt ár. Ólympíuleikar í ágúst og svo flutningar heim í september. Dvöl mín í Leverkusen fer að renna sitt skeið en tímann þangað til ætla ég að nota vel fyrir undirbúninginn fyrir ÓL.

Árið byrjaði þó á dapurlegan hátt. Afi minn dó á nýjársdag en þó var heilsu hans búið að hraka mjög og hvíldin var því honum kærkomin. Amma mín þarf þó að horfa á eftir lífsförunaut sínum sem hún var gift í 63 ár.
posted by Thorey @ 10:23   0 comments
Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile