the
 
the
sunnudagur, janúar 27, 2008
Þú uppskerð eins og þú sáir
Hæfileiki einstaklingsins í viðkomandi íþrótt er eitthvað sem gott er að hafa til að ná árangri. Hugarfar og rétt beiting hugans á æfingu eða í keppni er annað sem verður að hafa ef stefnt er á toppinn. En svo aftur spurningin, hvar skilgreinum við toppinn?
Að mínu mati eru stærstu sigurvegararnir þeir sem upplifa það að sigra sjálfan sig, sem geta eitthvað sem þeir ekki gátu áður, þeir sem komast yfir hindranir og þeir sem leggja sig alltaf 100% fram. Stundum eru verðlaunin gullpeningur um hálsinn, stundum er það stórt bros í eigin andliti.

Það eru margir sem halda að það sé nóg að hafa hæfileikann til að ná langt. Trassa jafnvel æfingar og leggja ekki hart að sér á æfingum eða í keppnum. En slíkt hugarfar kemur hæfileikaríkum íþróttamanni ekki langt, þeir verða ekki góðir lengi. Síðan eru aðrir sem hafa litla hæfileika en mjög mikinn vilja og áhuga á að verða bestir, þessir einstaklingar skara jafnvel framúr.

Hugarfarið skiptir miklu máli í íþróttaiðkun líkt og mörgum öðrum hlutum í lífinu. Að ætla sér að verða bestur þýðir að það þurfi að leggja hart að sér, klára hverja æfingu með fullri áreynslu, hlusta á þjálfarann og treysta því sem hann er að segja, setja sér lítil og stór markmið eins og að ætla sér að verða betri í dag en í gær eða að ná í gullið næst eftir að hafa krækt í silfur. Þannig er hægt að hlaða ofan á getu sína smátt og smátt þar til stóra markmiðinu er náð. Þá er byrjað upp á nýtt, ný markmið sett og enn meira lagt á sig til að ná því.

Þegar kemur að því að keppa vilja taugarnar oft taka stjórnina af íþróttamanninum og þeim árangri sem búist hafði verið við er langt í frá náð. Það þekkja allir íþróttamenn neikvæðar tilfinningar sem ásækja hugann í keppni. Galdurinn er að kunna að tækla þær líkt og það þarf að tækla andstæðinginn. Björn Daehlie, margfaldur Ólympiumeistari í skíðagöngu, sagði einu sinni að fyrir keppni þarf hann alltaf að hafa tvö rúm í herberginu sínu því hann svitnar svo mikið útaf stressi á nóttunni að hann þarf að skipta um rúm. Þetta er gott dæmi um íþróttamann jafnvel í fremstu röð sem þjáist af stressi og kvíða fyrir mikilvæga keppni. Það er semsagt eðlilegt að hafa þessar hugsanir og það þarf að kunna að sigrast á þeim og það er hægt að læra.

Á ný liðnu Evrópumeistaramóti í handbolta voru þjóðverjar með aukaþjálfara í liðinu. Sá þjálfari sá um svokallaða “hvatningaþjálfun”. Hann var einungis til staðar til að hjálpa leikmönnunum að hugsa jákvætt. Það er vísindalega sannað að þegar íþróttamaður hugsar jákvætt hefur hann meiri kraft. Þar af leiðandi getur hann nýtt betur þá vinnu sem hann hefur lagt í æfingar í keppninni sjálfri.

Það er ljóst að ef ná skal árangri þarf að leggja hart að sér. Það þarf að borða hollan mat, sofa mikið, trúa alltaf á sjálfan sig og hugsa jákvætt. Það þarf að tapa til að geta sigrað og það þarf að bera ábyrgð á eigin frammistöðu í slæmu gengi. Þjálfari er til staðar til að aðstoða íþróttamannin til að ná á toppinn, hann býr ekki til meistara með eigin höndum. Það er á valdi íþróttamannsins að gera það sem hann segir og örlítið meira en það. Eftir slæmt gengi þarf að nota viljann að vopni og nýta mótlætið í styrk og reynslu. Allir hrasa, það kemur alltaf hindrun í veginn, en það eru aðeins þeir sterku og viljamestu sem standa upp og uppskera það að komast á toppinn.
posted by Thorey @ 22:08  

10 Comments:

At 3:24 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Góðar pælingar, sem ekki eiga bara við um íþróttamenn!

 
At 8:30 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Góður pistill!

Það er misjafnt hvar fólk setur toppinn en það er líka misjafnt hvað fólk kallar toppíþróttamenn. Það tók mig ár að fatta að sleggjukastþjálfarinn minn hérna úti kallar bara toppíþróttamenn þá sem lenda á verðlaunapalli á hverju stórmótinu á fætur öðru eða eru að minnsta kosti í topp 8 mörg ár í röð , elítan. Meðan mér finnst allir sem komast inn á stórmótin vera toppíþróttamenn, sumir auðvita stærri stjörnur en aðrir.

 
At 9:24 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er svaka blogg hjá þér. Og mikið til í þessu.
Ég get samt ekki látið stressið vinna með mér eins og Björn Daehlie, því ég næ aldrei áttum fyrr en eftir 5 holur vegna stess þegar ég er að keppa.
Þarf að laga það eitthvað :)
Kv. Albert.

 
At 1:38 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Góð grein og skemmtilegar pælingar.

Mér finnst persónulega að þegar maður setur sér markmið að þau séu einmitt ekki "vera betra í dag en í gær" eða "gera sitt besta" eða "bæta sig", heldur hafa þau betur skilgreind og mælanleg.

Hvort sem það er að bæta sig á milli æfinga með því að hlaupa samskonar æfingu 0,5 sek hraðar en í seinustu viku eða langtíma markmið upp á ákveðinn tíma fyrir sumar.

 
At 3:51 e.h., Blogger Thorey said...

Vó takk fyrir kommentin :)

Fyndinn Albert en jú stressið getur verið yfirþyrmandi ef ekki er náð stjórn á því.

Bergur ég er tala um lítil og stór markmið og þá betri í dag en i gær að því leitinu að eftir 5 upphífingar í dag geri ég 6 á morgun. Þetta þarf ég að sjálfsögðu ekki að skrifa niður. Svo eru það miðlungsmarkmiðin sem eru þrep að langtímamarkmiðinu. Þau markmið er gott að skrifa niður.

Og já þetta á að sjálfsögðu við mjög margt í lífinu, alls ekki bara íþróttir heldur allt sem maður tekur sér fyrir hendur.

 
At 10:00 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er svo svakalega rétt hjá þér Þórey, hvert og eitt einasta orð!!
Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað hugurinn skiptir ótrúlega miklu máli í þjálfun okkar. Því fyrr sem þú áttar þig á því betra. Einnig er mikilvægt að skrifa niður markmið sín og vita hvað maður vill. Sigurvegarar fæðast ekki, þeir eru búnir til með þrotlausri vinnu.
Þú hefur algjörlega allt sem þarf til þess að verða sigurvegari. Gangi þér vel!!!

 
At 2:22 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

ótrúlega flott grein og vel skrifað hjá þér Þórey.
kv,Sigrun Fj.

 
At 11:43 f.h., Blogger Hafdís Ósk said...

Rosalega góð grein hjá þér og hittir algjörlega naglann á höfuðið. Það er nefnilega oft þannig að þeir íþróttamenn sem hafa hvað mestan hæfileika til að skara fram úr hafa ekki viljann til að gera það á meðan þeir sem fæðast ekki með hæfileikann leggja þrotlausa vinnu á sig til að fá hann og uppskera í samræmi við það.
Svo að ég sletti svolítið í lokin - keep up the good work!

 
At 2:38 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vá.. mjög flott blogg.. gefur manni eldmóð.. því það koma oft efasemdir upp í hugann þegar maður hefur ekki hæfileikann heldur bara viljann og metnaðinn.. held ég eigi eftir að lesa þetta oft og mörgum sinnum í viðbót :)

Kv. Íris Þórs

 
At 3:41 e.h., Blogger Rikey Huld said...

Ég er alveg sammála öllum hérna að ofan að þetta er mjög góð grein og skemmtilegar pælingar. Maður peppast meira að segja soldið upp við að lesa þetta:)

 

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile