Orð þessi öðlast nýja merkingu í kjölfar þeirrar ákvörðunar Íslendinga að kalla stóriðju og stórfelldar jarðfræðilegar breytingar yfir eyjuna.
Það er sorglegt að ímynda sér að vistfræðilegar afleiðingar þess að stífla stór og kraftmikil vatnsföll séu lítilvægar og viðráðanlegar. Það er sorglegt að ímynda sér að fossar og vatnsflæði sem stýrt er með pípulögnum sé nægilega líkt náttúrunni sem það kemur í staðinn fyrir. Það er sorglegt að ímynda sér að svo róttæk umbylting á landslaginu muni einfaldlega leiða af sér eftirlíkingu af náttúrunni sem er í eins góðu jafnvægi og sú upprunalega. Allir sem hafa komið til Disneylands vita að það eina sem slíkar eftirlíkingar áorka er að minna mann á hið upprunalega.
Sem Bandaríkjamanni er mér um megn að skilja af hverju Ísland, sem eitt auðugasta ríki heims miðað við höfðatölu, þar sem atvinnuleysi er lítið, auk þess sem það er eitt hreinasta og vistfræðilega heilsteyptasta nútímaríki í heimi, ætlar að beita aðferðum sem eyðileggja þau gæði. Í fyrstu með því eyðileggja ásýnd þess landsvæðis á Íslandi sem er í beinum tengslum við sjálfsmynd þjóðarinnar og síðar, sem ef til vill varðar meiru, með því að skapa fordæmi fyrir frekari spjöllum.
Nú er árið 2002 og Íslandi hefur tekist að forðast þessi heilsuspillandi og skaðlegu úrræði. Innleiðing á þeim nú afhjúpar hversu Ísland stendur í rauninni langt að baki öðrum nútímaríkjum. Ísland hefur haft tækifæri til að gera sér grein fyrir hvert þessar hugmyndasnauðu aðferðir hafa leitt aðra. Og það liggur ljóst fyrir að skammtímagróði vegur afkáralega létt á móti varanlegum og óafturkallanlegum umhverfisspjöllum. Bandarískt landslag (svo tekið sé dæmi) ber vitni um endalausa víxlverkun slíkra spjalla: iðnaðarúrgangur, vistfræðileg eyðilegging og umhverfismengun. (Sjá New Jersey, þar sem tíðni krabbameins er sú mesta í Bandaríkjunum um þessar mundir. Sjá fenjasvæðin í Flórída þar sem ráðist hefur verið í stærsta verkefni sem um getur í Bandaríkjunum til að endurheimta náttúruna. Árangurinn; ekki er gert ráð fyrir að hægt verði að varðveita svæðið þrátt fyrir að búið sé að eyða milljörðum dala í að snúa eyðileggingarferlinu við. Sjá Mexíkóflóann, sem nú gengur undir nafninu "dauðasvæðið", þar sem fiskur þrífst ekki lengur í sjónum. Sjá stífluna í Kólóradó-ánni sem margir álíta mesta vistfræðilega stórslys í sögu Bandaríkjanna.) Í Bandaríkjunum er landslag sem draga má lærdóm af.
En þess í stað hefur Ísland kosið að verða fyrsta nútímasamfélagið til að láta klukkuna ganga aftur á bak - eftir að hafa komist hjá iðnvæðingu í allar þessar aldir mun Ísland verða fyrsta nútímaríkið til að iðnvæðast. Og það sem kemur manni jafnvel enn meira úr jafnvægi - íslenskir stjórnmálamenn hafa þar að auki gert ráðstafanir (með engum tilkostnaði) til að versla með það hversu Ísland hefur verið tiltölulega laust við mengun og nota sem grundvöll til að framleiða jafnvel meiri mengun en talist getur viðunandi á alþjóðlegan mælikvarða. Ísland tekur fagnandi vafasömu iðnaðartækifæri sem fátækari lönd er búa við mun meiri óstöðugleika hafa hafnað. Það er rétt eins og Ísland hafi bókstaflega ákveðið að stíga skref aftur á bak og taka þroska sinn út seinna.
Ísland er enn hreint land í heimi sem stöðugt verður mengaðri, en jafnvel þótt vatnsorka sé "hrein" eru málmbræðslur og iðnaður það almennt séð ekki. Jafnvel ímyndin er óhrein. Ég spyr sjálfa mig af hverju Ísland kýs að innleiða iðnað og iðnaðarmengun á eyjunni. Af hverju Ísland er tilbúið til að beita harðfylgi við að umbylta landslaginu og eyðileggja viðkvæm vistkerfi sín. Af hverju Ísland kýs af fúsum og frjálsum vilja að byggja upp ónauðsynleg samfélagsleg mannvirki, þrátt fyrir að hafa orðið vitni að þeim óafturkallanlega skaða sem iðnaðarríki hafa kallað yfir umhverfi sitt og að lokum sjálf sig. Ég spyr sjálfa mig af hverju Íslendingar, sem eru læs og vel menntuð þjóð, ímyndi sér að þeim takist að forðast þann skaða sem öðrum nútímamenningarheimum hefur ekki tekist að forðast? Og loks, af hverju Íslendingar, sem njóta lífsgæða er grundvallast á óskertri og einstaklega heilsteyptri náttúru og hreinleika auðlinda hennar, eru tilbúnir til að taka þá áhættu að eyðileggja hana?
Eyðilegging er þó óviðunandi góðlátlegt orð í þessu samhengi. Það væri betur við hæfi að nota orð eins og limlesting, eða öllu heldur limlesting á sjálfum sér. Það sem Ísland er í þann veginn að framkvæma með byggingu þessarar stíflu og innrás vegakerfis á þessum stað er verknaður sem felur í sér limlestingu á sjálfum sér.
Ef til vill kallar nýfengin lausn Íslendinga undan lélegum húsakosti og vondum veðrum enn á sterk viðbrögð; kröfur um framþróun hvað svo sem hún kostar. En þessi afturhaldssama tilhneiging til að virða að vettugi eða eyðileggja hluti sem tengjast þeirri fyrri drottnun beinist fyrst og fremst að þeim sjálfum.
Sálfræðilegur, andlegur og líkamlegur ávinningur þess að virða heilindi umhverfis manns er takmarkalaus. Að virða ekki einungis þá staðreynd að þau eru til, heldur gera einnig ráðstafanir til að viðhalda þeim. Allir sem geta hugsað sér að verða foreldrar verða jafnframt að axla ábyrgð á því að viðhalda heilindum umhverfisins. Ef ekki tekst að varðveita sjálfa undirstöðuna mun dómur barna ykkar og barnabarna verða sá að þið hafið ekki metið heilsu og andlega velferð afkomenda ykkar að verðleikum.
Ísland hefur valdið tiltölulega litlum skaða á umhverfinu, þó ekki vegna virðingar fyrir því, heldur vegna þess að það er ekki nóg af Íslendingum til að halda í við afganginn af heiminum við eyðileggingu hans.
Það hefur vakið eftirtekt mína hversu hugfangnir Íslendingar eru af Bandaríkjunum, og vegna þeirra vafasömu áhrifa sem það hefur á landið langar mig til að minnast á hversu stolt ég hef verið af því að alast upp í Bandaríkjunum. Stolt af þeirri hvatningu sem þar var fyrir hendi og örvaði hugarflugið fyrir tilstilli kapítalisma og af því frjálsræði sem gerði hvers konar einstaklingseinkennum kleift að blómstra. Í seinni tíð hef ég þó skammast mín innilega fyrir að vera Bandaríkjamaður. Það er ekki aðeins vegna útbreiddrar vanvirðingar á náttúrunni, hvort sem verið er að höggva niður síðustu þúsund ára gömlu trén sem eftir standa eða menga vísvitandi heilu landsvæðin með þungamálmum, lífrænum efnasamböndum og óteljandi öðrum eiturefnum. Ekki aðeins vegna óseðjandi græðgi sem ekki á sér fordæmi í sögunni, heldur vegna óbeislaðrar neyslu sem tekur á sig mynd hugsunarlausrar efnishyggju. Því lengra sem menningarheimur gengur í þá átt að eyðileggja jafnvægið á milli náttúrulegs bakgrunns síns og tengsla sinna við hann, því djúpstæðari verður þörfin til að dylja, afneita og bæta sér upp missi hans. Þetta er grundvallarástæða síaukinnar neyslu, neyslu sem á ekkert skilið við þörf eða velmegun. Hún er uppbót fyrir missi sem er ekki bara erfitt að koma orðum að, heldur er hreinlega ólýsanlegur.
Þegar ég horfi á málið utan frá tek ég eftir því hversu átakanlega Ísland skortir grundvallarsjálfsvirðingu. Sjálfsvirðingu sem myndi hvetja þjóðina til að horfa gagnrýnum augum á heiminn og draga af honum lærdóm um hvernig hlutirnir gætu verið öðruvísi. Sjálfsvirðingu sem myndi gera landið fært um að taka þá áhættu að verða öðruvísi. Sjálfsvirðingu sem myndi gera þá kröfu til þjóðarinnar að hún finni lausnir er grundvallast á sértækum og einstökum eiginleikum íslensks almennings, en ekki lausnir sem eru ódýrar eftirlíkingar af óafturkallanlegum mistökum annarra menningarheima.
Á þessum tímapunkti, með tilliti til þess að svo margar og ef til vill flestar aðrar þjóðir hafa kastað umhverfislegri arfleifð sinni fyrir róða, er slíkt viðhorf skrípaleikur. Einfeldnin sem í því felst er hneykslanleg. Mig langar til að trúa að fáfræði sé um að kenna, en einangrunin er áður einkenndi eyjur var rofin fyrir löngu. Sú staðreynd að Ísland hefur ekki enn þurft að reyna afleiðingar svo gegndarlausrar vanvirðingar þýðir ekki að þið þurfið að valda samskonar tjóni á ykkar landi með því að velja sömu leið. Og einn grundvallarmunur mun greina ykkur frá öðrum í þessu sambandi - þið Íslendingar áttuð val. Eitt hundrað fossar hverfa og fimm hundruð störf birtast. Það þýðir fimm störf fyrir hvern foss. Það er svívirðilegt gjald (í auðlindum þjóðarinnar) fyrir svo rýr býti. Það er eitt þegar keppinautar vanmeta gildi manns, en hvaða þýðingu hefur það þegar kjörnir fulltrúar lands leggja svo lágt mat á virði þjóðar?
Ísland mun aldrei leika stórt hlutverk meðal þjóða heims. Smæð ykkar og skortur á olíuuppsprettum kemur meðal annarra hluta í veg fyrir það. Þeim mun meiri ástæða er til að fara eftir ykkar eigin leikreglum. Þið hafið lifað af og þrifist á eigin forsendum svo lengi. Af hverju að gefast upp núna?
Halldór Laxness fjallar um órofa samhengi í þeim upphafslínum Brekkukotsannáls sem vísað er í hér að ofan. Seinna í bókinni talar hann um tifið í klukkunni í Brekkukoti. Hann vitnar í klukkuna: "ei-líbbð, ei-líbbð, ei-líbbð". En hér á Íslandi hafið þið snúið atkvæðunum við. Ísland mun horfa fram á óhreinni morgundag. Foreldrar og stjórnmálamenn sem ekki vilja leita langtímalausna í efnahagslegu mótstreymi geta hvorki haldið áfram að skýla sér á bak við framtíð barna sinna, né notað hana sem afsökun fyrir því að eyðileggja takmarkaðan og viðkvæman auð dagsins í dag.
Velkomin til Íslands árið 2002.