mánudagur, júlí 28, 2008 |
Pólland á morgun, kvörtun yfir lyklaþjónustu ofl |
Hér er ofur hiti þessa dagana og maður nýtir hvert tækifæri sem gefst til að stökkva í sundlaugina. Reyndar týpísk ég að vera komin heim af æfing hálf eitt og festast við verkefni í tölvunni, ryksuga, skúra og þurrka af alveg kófsveitt og á meðan er glampandi sól úti. Ákveð loksins að koma mér í sundlaugina og leggjast á bakkann og þá er klukkan orðin 17 og orðið skýjað. Þannig var það í dag :)
En ég held til Póllands á morgun. Flýg til Kattowitz og verð sótt þar. Mótið er í Bielsko-Biala. Ætla bara að taka mótið með jafnaðargeði og hafa gaman af. Er hætt að eltast við hæðir og hugsa um þær, kemur mér allavega ekkert hærra.
Af útlæsingarmálunum er það að frétta að nágrannakona mín er æfari en ég yfir þessu og er búin að fara útum allan bæ að athuga hvort þetta sé eðlilegt verð. Niðurstaða könnunar hennar er að þetta er fáránlegt og ég eigi að skrifa bréf til Notendaþjónustu Nord-Rhein Westfalen sem er sýslan sem ég bý í. Ég er búin að hripa eitthvað niður og mun koma þessari kvörtun sem fyrst í póst. Sjáum hvað kemur útúr því.
Bjössi Arngríms kemur til mín á morgun (eða í heimsókn til íbúðarinnar þ.s ég verð farin til Póllands) og gistir því hann er að keppa á Bayer mótinu hérna á vellinum mínum á miðvikudaginn. Gaman að því og ég vona að hann nái að hlaupa vel. Allavega er spáð áframhaldandi steik.
Annars takk fyrir kommentin og endilega haldið þessu áfram :) |
posted by Thorey @ 19:12 |
|
|
sunnudagur, júlí 27, 2008 |
Fyrst maður er byrjaður að blogga... |
en þið verðið að drullast til að skrifa athugasemdir!
En vá ruglið sem ég lenti í í gær. Ég var að fara á æfingu, svona eins og gengur og gerist, nema ég fattaði um leið og ég lokaði hurðinni af íbúðinni að ég gleymdi lyklunum inni. Fékk nett áfall en hringdi svo í lyklaþjónustu sem svo birtist nokkru síðar. Ekki gat gaurinn opnað með að stinga prjóni á milli því hurðin er svo þétt uppvið dyrakarminn þannig að hann braut hurðarhúninn af og skipti um dót í kringum lásinn sjálfan. Þessi maður var mjög furðulegur. Tautandi endalaust og alveg búinn á því þegar hann þurfti að fara af 3ju hæð niður í bílinn sinn að ná í eitthvað. Kom eins og hvalur aftur upp. En hvað um það. Hann lauk verkinu og settist svo niður að skrifa reikninginn. 389 evrur takk fyrir!!!! Sem gerir með genginu í gær 127,8 evrur samtals 49.714 kr!!!!! Ég jafna mig ekki á þessum reikningi skal ég segja ykkur næstu árin. Ég vildi fá að vita af hverju þetta var svo dýrt og kona sem býr fyrir neðan mig sagði við hann að hann hefði átt að reyna betur með prjóninum á milli karms og hurðar og upphófst mikið rifrildi og missti maðurinn algjörlega stjórn á skapi sínu. Gargaði og sakaði okkur um að kalla hann svikara og bla bla. Ég bað um að fá að tala við yfirmann hans því ég vildi fá að vita af hverju þetta væri svona dýrt. Sá bullaði um eitthvað helgargjald ofl. Ég fékk fram smá afslátt eða borgaði 350 evrur (44.730kr) sem er enn fáránlegt verð! Ég er í sjokki.
Íslandsmeistaramótið var um helgina og óska ég öllum íslandsmeisturum til hamingju með titilinn. Sérstaklega vil ég óska Kristbjörgu Helgu til hamingju með frábært Íslandsmet! |
posted by Thorey @ 17:34 |
|
|
laugardagur, júlí 26, 2008 |
Af thorey.net |
Nú er júlí senn á enda og mánuður Ólympíuleikanna að renna upp.
Ég hef keppt á 8 mótum í sumar og búin að fara alltaf bara opnunarhæðina mína 4,20 nema á Bikarmóti FRÍ heima á Íslandinu góða fór ég 4,30. Ég á eftir að keppa á einu móti fram að leikum en það verður í Biesko-Biala í Póllandi þann 30.8.
Því miður þurfti ég að sleppa sjálfu Íslandsmeistaramótinu sem er núna um helgina vegna hásinarinnar. Á síðasta mótinu mínu sem var á Krít versnaði ég svo rosalega í sininni að ég gat lítið gert á æfingu síðustu vikur. Þegar ég fann að sininn var ekkert að fara að jafna sig af sjálfsdáðum hringdi ég í lækninn minn í Munchen og flaug þangað á fimmtudag síðasta til að hitta hann. Núna er ég aftur miklu betri (langt frá því að vera góð) og ætti að fara að geta stokkið næstu daga á ný og vonandi get ég keppt í Póllandi. Þar keppi ég að sjálfsögðu ekki nema ég sé nógu góð.
Fyrir Ólympíuleikana mun ég fara í æfingabúðir til Japan (Marugame) á sama stað og við fórum í fyrra fyrir Heimsmeistaramótið. Þangað er flogið þann 4.ágúst og til Pekíng flýg ég svo þann 13.ágúst. Undankeppnin er síðan þann 16.ágúst og mun ég reyna að gera allt til að komast í úrsltiakeppnina sem er þann 18.ágúst. Það verður ansi tæpt en þó að sjálfsögðu möguleiki. Sjálf veit ég að ég get farið hærra en ég hef sýnt í sumar og verð bara að reyna að sýna það á leikunum sjálfum.
Eftir leika mun ég fara aftur til Leverkusen þ.s ég mun pakka saman öllu dótinu mínu og flytja það til Íslands. Ég er búin að fá vinnu heima á Íslandi og mun taka nýr kafli við í mínu lífi. Ég segi þó ekki alveg bless við stöngina þótt ég muni taka hana upp mun sjaldnar en áður. Að vera meidd í 2 ár sleppur en þegar árin eru orðin 3 fer maður að hugsa sinn gang. Ég er 31 árs gömul og búin að æfa amk 6-9x í viku eða um 20-25 klst í 18 ár og líkaminn fer að sjálfsögðu að segja til sín. Ég vildi þó gjarnan vera 21 árs núna og eiga fullt af árum eftir því hausinn gæti alveg haldið áfram í 10 ár í viðbót. En við eldumst víst öll..
Ég ætla að njóta síðustu viknanna minna hérna í þessu afreksíþróttaumhverfi sem ég hef búið í síðustu 5 árin. Njóta Ólympíuleikanna sem verða mínu síðustu og njóta þess að stökkva stangarstökk sem er það skemmtilegasta sem ég geri. |
posted by Thorey @ 08:01 |
|
|
föstudagur, júlí 25, 2008 |
Yoo, Richi, Michael |
|
posted by Thorey @ 09:55 |
|
|
laugardagur, júlí 19, 2008 |
|
|
posted by Thorey @ 13:27 |
|
|
|
|