laugardagur, júlí 26, 2008 |
Af thorey.net |
Nú er júlí senn á enda og mánuður Ólympíuleikanna að renna upp.
Ég hef keppt á 8 mótum í sumar og búin að fara alltaf bara opnunarhæðina mína 4,20 nema á Bikarmóti FRÍ heima á Íslandinu góða fór ég 4,30. Ég á eftir að keppa á einu móti fram að leikum en það verður í Biesko-Biala í Póllandi þann 30.8.
Því miður þurfti ég að sleppa sjálfu Íslandsmeistaramótinu sem er núna um helgina vegna hásinarinnar. Á síðasta mótinu mínu sem var á Krít versnaði ég svo rosalega í sininni að ég gat lítið gert á æfingu síðustu vikur. Þegar ég fann að sininn var ekkert að fara að jafna sig af sjálfsdáðum hringdi ég í lækninn minn í Munchen og flaug þangað á fimmtudag síðasta til að hitta hann. Núna er ég aftur miklu betri (langt frá því að vera góð) og ætti að fara að geta stokkið næstu daga á ný og vonandi get ég keppt í Póllandi. Þar keppi ég að sjálfsögðu ekki nema ég sé nógu góð.
Fyrir Ólympíuleikana mun ég fara í æfingabúðir til Japan (Marugame) á sama stað og við fórum í fyrra fyrir Heimsmeistaramótið. Þangað er flogið þann 4.ágúst og til Pekíng flýg ég svo þann 13.ágúst. Undankeppnin er síðan þann 16.ágúst og mun ég reyna að gera allt til að komast í úrsltiakeppnina sem er þann 18.ágúst. Það verður ansi tæpt en þó að sjálfsögðu möguleiki. Sjálf veit ég að ég get farið hærra en ég hef sýnt í sumar og verð bara að reyna að sýna það á leikunum sjálfum.
Eftir leika mun ég fara aftur til Leverkusen þ.s ég mun pakka saman öllu dótinu mínu og flytja það til Íslands. Ég er búin að fá vinnu heima á Íslandi og mun taka nýr kafli við í mínu lífi. Ég segi þó ekki alveg bless við stöngina þótt ég muni taka hana upp mun sjaldnar en áður. Að vera meidd í 2 ár sleppur en þegar árin eru orðin 3 fer maður að hugsa sinn gang. Ég er 31 árs gömul og búin að æfa amk 6-9x í viku eða um 20-25 klst í 18 ár og líkaminn fer að sjálfsögðu að segja til sín. Ég vildi þó gjarnan vera 21 árs núna og eiga fullt af árum eftir því hausinn gæti alveg haldið áfram í 10 ár í viðbót. En við eldumst víst öll..
Ég ætla að njóta síðustu viknanna minna hérna í þessu afreksíþróttaumhverfi sem ég hef búið í síðustu 5 árin. Njóta Ólympíuleikanna sem verða mínu síðustu og njóta þess að stökkva stangarstökk sem er það skemmtilegasta sem ég geri. |
posted by Thorey @ 08:01 |
|
|
|
|
8 Comments:
Gangi þér virkilega vel. Þú gerir bara þitt besta- meira er ekki hægt að ætlast til og þú getur verið mjög sátt við sjálfa þig. Fúlt að hásinin sé ekki góð en svona er þetta stundum.
Það verður gaman að fá þig heim stelpa- sjáumst í haust ***
Bestu kveðjur Hugrún H
Æ gaman að heyra frá þér Hugrún. Takk fyrir og já við sjáumst heima í haust :)
Ég er búin að vera í smá sjokki yfir skrifum þínum í gær og þurfti smá tíma til að jafna mig. Mér finnst alveg agalegt að þú sem besta frjálsíþróttakona landsins og besta fyrirmynd sem ungir frjálsíþróttamenn gætu haft sért að fara að minnka við þig ef svo má að orði komast. Ég er þó fegin að skórnir séu ekki alfarið að fara á hilluna en þó finnst mér að stórt skarð verði skilið eftir. Ég er búin að hafa gaman af því að fylgjast með þér og þínum frábæra ferli og hef lifað mig inn í alla toppi og lægðir sem komið hafa. Ég skil samt vel að þú sért orðin þreytt á erfiðum löppum og glöð í hjarta myndi ég skipta um hásinar við þig í nokkur ár til viðbótar! Þú átt án efa eftir að skara fram úr í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur og ég hlakka til að fylgjast með þér á nýjum stöðum!
Ég kem til með að sitja límd fyrir framan skjáinn á Leikunum og hlakka til að sjá þig koma á óvart :)
Hásinar pásinar - áfram Þórey!
Að njóta! Það er málið! Gleðin á eftir að lyfta þér hátt í Peking! Ég held að margir íþróttamenn geri þau mistök að láta vonbrigðin yfir því sem þeir náðu ekki, skyggja á gleðina yfir því sem þeir náðu. Þar eru mörkin milli orsakar og afleiðingar oft óljós.
Fagna nýjum liðsmanni í umhverfismálunum hérna heima. (Geri ráð fyrir að nýja vinnan sé á því sviði).
Gangi þér allt í haginn!
Ég er sammála Hafdísi, þú ert pottþétt ein allra besti frjálsíþróttamaður (karla og kvenna) sem Ísland hefur átt og klárlega besta fyrirmynd sem maður getur hugsað sér fyrir frjálsar á Íslandi. Það er sko ekki til ein mínúta í ferli sem þú þarft að skammast þín fyrir og það er eitthvað sem fáir geta státað sig af.
Það verður mikill heiður að fá að kvetja til áfram (live!) á þínum síðustu Ólympíuleikum!
Vá stór orð sem ég þakka kærlega fyrir. Og takk fyrir hásinagjöfina Hafdís :)
En já það er búið að vera hálfgert þrumuský yfir mér síðasta mánuðinn vegna árángursleysis en ég sá ljósið á ný... Þrátt fyrir að vera ekki að stökkva hæstu hæðir þá er þetta samt svo gaman bara.
Takk fyrir kommentin
Hæ dúlla,
Vá hvað ég hlakka til að upplifa Ol með þér, þú átt eftir að gera þetta með stæl, engin spurning. Ég man svo vel árið sem þú fórst 4,60...... 10 mót á undan voru 4,20 so you never know ;)
Ef ég þekkji þig rétt Þórey Edda þá áttu eftir að klára þitt með stæl.....
Við sjáumst í Marugame .....
Knús og kossar,
Unnur Sig.
Mér finnst ótrúlega leiðinlegt að heyra þú skulir vera draga þig í hlé, en ég skil það svosem alveg.
Mér finnst ótrúlegt hvað þú hefur verið sterk í öllu þessu mótlæti og flestir væru löngu búnir að gefast upp. Og aldrei heyrir maður þig kvarta eða kveina. Alltaf bara með stefnuna á einn hlut og lætur ekkert stoppa þig, no matter.
Þú mátt vera stolt af öllum þínum afrekum, því þú ert sannkölluð afrekskona, ein besta frjálsíþróttakona landsins og frábær fyrirmynd.
Ég hef enn fulla trúa á þér í Peking og ætla sko að sitja límdur yfir skjánum.
Skrifa ummæli
<< Home