the
 
the
fimmtudagur, apríl 24, 2008
Læknir dagur 4
GLEÐILEGT SUMAR

Á æfingu í morgun hljóp ég 6 hraðaaukningar nánast verkjalaus! Oh ef þetta heldur svona áfram verður aftur gaman að æfa og keppa :) Hlakka svo til að geta æft á pyntinga...

Læknirinn var bara hress að venju. Eins og það er nú mikið að gera þá nær hann að halda ró sinni og gefur sér tíma fyrir alla. Enda langur biðtími en þess virði fyrir góða meðferð. Hann sprautaði aftur í kálfana og á morgun sprautar hann síðustu sprautunum í sinarnar og bakið. Fékk einnig vítamín high :)

Læknirinn er 65 ára gamall en lítur út fyrir að vera í mesta lagi 55 ára. Hann var nú held ég bara kominn á trúnó í dag þegar hann fór að tjá sig um hvað hann hefur verið heppinn í lífinu að starfa við það sem honum finnst skemmitlegast. Að hjálpa íþróttafólki og hitta íþróttafólk allsstaðar að úr heiminum. Stundum bíður hann til veislu fyrir sjúklingana sína og einu sinni voru íþróttamenn hjá honum frá 15 mismunandi þjóðernum. Svo líkar honum best við frjálsíþróttafólk því það heldur sér á jörðinni á meðan flestir fótboltamenn eru mjög hrokafullir. "Það eru peningarnir", segir hann. Og já ég er sammála honum.

Svo kjaftaði hann því í mig að ameríska stelpan í stönginni, Jennifer Stuczynky, hafi verið hjá honum. Við stangarstökkvarar þjáumst víst flest af því sama (af þeim sem þjást af einhverju) en ég veit að Anna Rogowska og Tim Lobinger voru einnig með þetta sama. Svo bætti hann við "Alveg róleg, þú verður eins og ný!"

Með þessum orðum fór ég sátt útí ösina í miðbæ Munchenar. Ég er búin að eyða um 35 stundum hér í miðbænum og þekki mig orðið því nokkuð vel. Hvar hvaða kaffihús er eða hvaða búð. Hef rölt inn og út um gluggann en ekki keypt einn einasta hlut. Er bara ekki í neinu verslunarstuði... En ekki sést til sólar í dag eins og spáð var heldur er hér enn einn rigningardagurinn.

En jæja, kveð hér Starbucks í bili og skelli mér í nokkra röntgengeisla.
posted by Thorey @ 14:11  

3 Comments:

At 5:08 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gaman að fá að fylgjast með þessari meðferð hjá þér Þórey. Og mikið vona ég að þetta virki, hef góða trú á þessu.
Gangi þér vel í framhaldinu.
Vigdís

 
At 6:03 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gleðilegt sumar sömuleiðis. Og takk fyrir kommentið um daginn - og hamingjuóskirnar. :) Maraþon er svo sem alveg eins og stangarstökk ef vel er að gáð, alla vega að því leyti að umbunin fyrir það sem vel er gert er að hafa gert það. Það er með öðrum orðum hægt að komast langt bara með því að hugsa um gleðina sem bíður manns þegar maður er kominn í markið og erfiðið er að baki. Svo er líka hægt að gleðjast á hverju augnabliki yfir því að vera kominn þangað sem maður er. Málið snýst um að setja sér markmið og gleðjast yfir hverju skrefi sem maður tekur áleiðis að því. Hitt er svo annað, að það er auðvitað töluverður munur á því að standa sig í „öldungasporti“ annars vegar og í keppni við heimselítuna hins vegar. Held samt að sami gleðilykill gangi að báðum dyrum.

Flott hjá þér að komast inn á mót 9. maí. Þar munt þú standa uppi sem sigurvegari hvernig sem á það er litið. Það er sigur að vera komin af stað og þú getur verið hoppandi kát í orðsins fyllstu merkingu, hvort sem sentímetrarnir verða aðeins fleiri eða færri. Þetta verður æfingamót fyrir gleðina. :)

Og svo er Dr. Müller Wohlfart augljóslega snillingurinn sem þú þurftir að hitta. Komminn tími á að líta á hlutina í samhengi, því að það er jú ekki þannig að hvert líffæri lifi sjálfstæðu lífi.

Gangi þér allt í haginn!

 
At 9:23 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Frábærar fréttir :) Ég hef mikla trú á þessu...æðislegt að þú hafir geta hlaupið nær alveg verkjalaus :D
Endilega haltu áfram að vera svona duleg að blogga, nauðsynlegt að fylgjast með þér
Kv. Helga Margrét

 

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile