fimmtudagur, apríl 17, 2008 |
Fótanudd |
Ég keyrði á þriðjudagskvöldið í 2 tíma til foreldra Richi og Silke Spiegelburg og gisti þar um nóttina. Ég ákvað að fara kvöldið áður því tíminn hjá fótanuddaranum var kl 09 og að keyra á hraðbrautum Þýskalands í gegnum iðnaðarborgirnar gengur engan veginn á þessum tíma dags. Fótanuddarinn var fínn, hann allavega sagði eitthvað nýtt. Hann segir þetta allt koma úr bakinu. Nuddaði punkta í fætinum sem tengjast bakinu og vá hvað það var vont! Var um 25 min hjá honum og keyrði svo aftur heim í 2 tíma.
Næst á furðulegu dagsskránni er það læknisheimsókn til München (600km í burtu frá Leverkusen!) og ég verð þar alla vikuna. Læknirinn vill hitta mig líklega 3x og ég gisti hjá einni stelpu sem æfði einu sinni hérna í Leverkusen.
Og ég segi bara, úff hvað maður leggur á sig fyrir þessar fætur. Satt að segja efast ég stundum um hvort þetta sé þess virði, hvort ég ætti ekki bara að pakka saman og gleyma þessu öllu saman. Svo skil ég í rauninni ekki að ég skuli ekki bara vera búin að því. Hvað heldur mér gangandi? Jú í fyrsta lagi trúin á sjálfa mig og sú vitund að ég get stokkið hærra en nokkru sinni. Í öðru lagi hugsunin um hvað það er gaman að vera heil og keppa og brosa af gleði yfir árangri. Í þriðja lagi þrjóskan. Ég hef hugsað síðan ég var í fimleikum að ég myndi aldrei hætta vegna meiðsla heldur af sjálfsdáðum.
Mig langar samt mikið til að gefa þrjóskuna eftir akkúrat núna.
Ég hef talið mér það að blogga ekki þegar ég er neikvæð en jú dagarnir eru auðvitað upp og niður hjá mér eins og mörgum öðrum í þessum heimi. Skapið mitt fer eftir verkjum í líkamanum. Ef ég er mjúk og hásinarnar betri er stutt í brosið en þá daga sem þær eru verri langar mig helst ekkert fram úr rúminu. Vinnan mín er jú líkaminn og þegar hann fer ekki í gang er lítið hægt að gera. Ég hef reyndar verið betri síðustu daga og er því ástandið allt með betra móti. Ég ætla samt að gefa ykkur smá innsýn inní hvernig þetta er allt hérna hjá mér í Leverkusen.
Ég bý ein (af eigin ósk) og æfi að lang mestu ein. Ég geri mitt eigið prógramm því ég get ekki fylgt prógrammi frá þjálfaranum vegna meiðslanna. Ég er súkkulaðikleina hérna af því að ég er ekki þýsk. Ég er því alltaf neðst í goggunarröðinni sem þýðir einfaldlega það að ég skipti hérna engan máli. Ég valdi sjálf að flytja hingað og æfa og tel ég það hafa verið rétta ákvörðun. Aðstaðan er meiriháttar og Leszek hentar mér einfaldlega vel sem tækniþjálfari. Héðan er líka auðvelt að fara á mót þ.e þegar ástandið er það gott að ég geti keppt.
Það sem ég er að reyna að koma að með þessum orðum er að mig vantar móralskan stuðning að heiman. Hvar er fólkið sem á að peppa mann upp? Hverjir flokkast undir þann hóp? Ég spyr því ég satt að segja veit ekki svarið. Ég er í einstaklingsíþróttagrein og þýðir það að peppið eigi að koma bara frá fjölskyldu og nokkrum góðum vinum (takk þið góða fólk)? Það vantar svo þetta mannlega inní þetta allt. Það að fá klapp á bakið þegar illa gengur er alveg jafn nauðsynlegt (eða mikilvægara!) og þegar vel gengur.
En jæja, það var kannski bara kominn tími til að ég kvarti aðeins. |
posted by Thorey @ 07:12 |
|
|
|
|
8 Comments:
Upp með hökuna, fram með brjóstkassann og leyfðu þrjóskunni að hafa yfirhöndina aðeins lengur. Það eru bara nokkrir mánuðir eftir enn. Æ hlýtur samt að vera erfitt og ruglandi að fara til svona margra aðila sem allir hafa mismunandi útskýringar :( Væri best ef þú gætir fundið aðferð til að æfa þetta bara í burtu (maður er alltaf að heyra svoleiðis sögur af íþróttamönnum sem hættu að hlusta á læknana) en ég hugsa að það sé hægara gert en sagt.
Baráttukveðjur
hehe þetta átti að sjálfsögðu að vera hægara sagt en gert (o:
Ef þú bara vissir af öllum þeim sem hugsa reglulega til þín, dáðst að þér og vilja allt fyrir þig gera vissirðu hversu stór hluti fólks sem þú þekkir lítið sem ekki neitt er annt um þig og þína heilsu. Ég persónulega er ótrúlega stolt af þér, ekki bara íþróttamannsins heldur líka af persónunni þér. Þú ert einn besti íþróttamaður sem Ísland hefur alið og ein heilstæðasta persóna sem ég þekki. Ég hef FULLA trú á því að þetta hásinavandamál þitt verði innan skamms úr sögunni og að þér séu ætlaðir stórir hlutir. Ég held einhverra hluta vegna að þú sért sammála mér í því!
Ég les allar færslur frá þér og dáist í hvert skipti af því hvað þú ert öguð, þrjósk og ákveðin í að ná þínum markmiðum. Ég vona innilega að þú haldir áfram á þeirri braut því það að gefast upp er svo alls ekki þú!
Þú ert alveg einstök!
Baráttukveðjur,
Ekkert að því að kvarta aðeins af og til. Ég held þú gefist ekki upp og heldur í þrjóskuna vegna þess að þér finninst líklegt að þú jafnir þig á hásinavandanum.
Þú veist að jafnvel þótt þú hættir á morgun þá munt þú hafa verið besti íþróttamaður íslands á þessum fyrsta áratug aldarinnar. Það er nú helvíti fínt afrek út af fyrir sig!!! Bíttu nú aðeins í súra eplið og gáðu hvort þú getir ekki bætt við afrekaskrána í Beijing og Berlin 2009, fyrst og fremst þín vegna. Ef ekkert lagast þá má alltaf ákveða að hætta síðar.
BTW, hefur þú hugleitt að hitta Gerard Hartmann? Það væri enn meiri ferð fyrir, en ég held hann sé sá besti í bransanum. Bara hugmynd, samt.
Gangi þér bara sem allra best
Tom Katsuragi
Þórey Edda!
Þú ert stolt okkar sverð og skjöldur.
Þú ert sú sem við gleðjumst innilega með þegar vel gengur en finnum til með þegar á móti blæs.
Styrkur þinn og þrjóska að halda áfram hefur verið leiðarljós margra ungra sem aldinna sem hafa verið í svipuðum erfiðleikum.
Með þessum fátæklegu orðum langar mig til að senda þér kraft til að halda áfram...þó það sé bara í hænuskrefum en við vitum að þegar boltinn fer að rúlla koma bætingarnar hratt.
Þú vilt, þú skalt og þú getur!!
ÉG hef fulla trú á þér Þórey Edda
Bestu kveðjur
Auður Aðalbjarnardóttir
Elsku Þórey mikið vildi ég geta knúsað þig til að stappa í þig stálinu. Það er ekkert eðlilegra en að sveiflast í skapi og tala ég ekki um þegar meiðsli eru að hrjá íþróttamenn á mikilvægum tímapunkti í aðdraganda Ólympíuleika. Mig langar að taka undir hvert orð með Hafdísi Ósk og senda þér baráttukveðjur og óskir um bata. Þú hefur svo sannarlega staðið þig vel og hefur allt til að bera sem sannur íþróttamaður þarf að hafa og varla finnst betri fyrirmynd fyrir þá sem á eftir koma. Halltu þínu striki og ekki trúi ég öðru en að þeir sem eru í forsvari íþróttamála þjóðarinnar séu til staðar fyrir þá íþróttamenn sem þjóðin er að senda á Ólympíuleika og veiti þeim allan þann styrk og stuðning sem á þarf að halda. Þú ert frábær.
Kær kveðja Jóna.
Ég tilheyri þessum afar þögla, en að ég held býsna stóra meirihluta, sem fylgist reglulega með þér á netinu, lítur á þig sem einn besta fulltrúa þjóðarinnar og veit að þú ert fyrirmynd fjölmargra ungmenna, en sem lætur svo sem aldrei í sér heyra, já er sem sagt þögull meirihluti lengst af. Þessi þögli hópur hugsar oft til þín og lætur sér mjög annt um hásinar, bak og líðan, en er kannski örlítið feiminn við að gerast of persónulegur án persónulegra tengsla. Þessi þögli hópur klappar þér á bakið í huganum, en gleymir því líklega að þú finnur ekki mikið fyrir svoleiðis klappi - ein í öðru landi - þegar engin orð fylgja með.
Líkaminn er annars stórkostlegt stykki, því að hann hefur eitthvert undravert lag á að bæta það sem aflaga fer - í samvinnu við hugann. Verkur á einum stað getur átt upptök á öðrum stað - og kannski ræður hugurinn úrslitum um niðurstöðuna. Og auðvitað gengur huganum ekki betur í því verkefni ef hann þarf samtímis að glíma við dálítinn einmanaleika og óheppilega stöðu í goggunarröð í öðru landi. Þar þarf stuðning til.
Ég er nokkuð sannfærður um að fæturnir og bakið eiga bjartari tíma framundan, vegna þess að nú verða þau skoðuð og meðhöndluð í samhengi. En við sem tilheyrum þessum þögla meirihluta þurfum að styðja þig betur. Hugsanir og góðar óskir halda áfram að streyma, en við þurfum líka að láta þig vita að við séum til. Þess vegna ákvað ég að rjúfa þögnina og leggja feimnina til hliðar um stund.
Haltu endilega þínu striki enn um stund, ekki til að þjóna þessum þögla hópi sem gleymir að láta stuðning sinn í ljósi, heldur frekar vegna þess að þú ert fyrirmynd - og ekki bara fyrirmynd, heldur góð fyrirmynd - og enn frekar vegna gleðinnar sem þú lýsir svo vel og átt í vændum þegar erfiðleikarnir eru að baki.
Gangi þér allt í haginn - alltaf!
Vá önnur eins pepp hef ég nú bara sjaldan séð á minni íþrótta æfi. Takk fyrir ótrúlega falleg orð öllsömul og gott að þagnarmúrinn sé rofinn :)
Á morgun kemur svo nýr og betri dagur.
Skrifa ummæli
<< Home