the
 
the
föstudagur, apríl 11, 2008
RSA
Af thorey.net:

Þá er þessi æfingabúðatörn á enda og þótt það sé gott að vera í sólinni þá er líka alltaf gott að koma "heim".Æfingabúðatörnin byjaði á Tenerife. Þar var ég með Gumma og Fjörmenningum i 10 daga. Síðan fórum við Gummi með mínum hóp héðan frá Leverkusen til Suður Afríku í 2 vikur. Fyrri vikan var sól og steikjandi hiti uppá hvern einasta dag, þá rigndi einn dag og svo var sól og miðlungs steik afganginn af tímanum.

Æfingar gengu alveg ágætlega. Ég reyndi að spara lappirnar aðeins fyrri vikuna í hlaupum en þ.s það virtist ekki vera að virka fór ég að negla á það og stökk jafnvel tvisvar sinnum. Það er einmitt það ótrúlega með þetta hásinavandamál mitt að þótt ég hvíli stöngina í 2 mánuði er nánast eins og ég taki hana upp aftur þar sem frá var horfið. Þar held ég að lyftingarnar (tók 75kg 3x í klíni frá gólfi og frá hnjám, einnig 50kg 2x í snörun sem er allt PB. Fer að maxa núna og fækka þá endurtekningunum) skipti miklu máli. Ég hef lyft mikið og styrkst og er styrkur lykillinn hjá mér til að geta hlaupið. Ég er einhvern veginn þannig gerð að ef ég missi úr smá lyftingar eru lappirnar orðnar að ekki neinu og þær gutlast þá útum allt í hlaupinu. En ég finn mig sterka í atrennunni núna þrátt fyrir engin hlaup allan þennan tíma. Planið er semsagt núna að æfa á þetta og leita að fleiri lausnum meðfram því. Kannt þú kannski hókus pókus?

Ég reyndi að nýta sundlaugina (líklega bara kalt vatn notað - fólk er að synda í blautbúningum!) eitthvað og gekk það vel í hitanum fyrri vikuna. Kaldasta daginn, en þá voru bara 20°, hélt ég að ég væri orðinn svo mikill jaxl að ég gæti alveg synt þá líka. Synti jú 1000m skrið án þess að stoppa en kólnaði með hverri ferð. Þegar ég kláraði var ég komin með hroðalegan kuldahausverk og illt í eyrun. Ekki lagaðist það þegar ég fór uppúr því þá tók við skjálfti í klukkutíma með miðstöðina í botni í bílnum. Ég hlýt að hafa ofkælst, ég sver allavega að mér hefur aldrei orðið jafn kalt á æfinni. Ég lét þetta gott heita af sundferðum.

Tíminn sem við áttum utan æfinga var nýttur í botn. Hann fór í góða leti, hrikalega góðan mat (besta sushi í heimi finnst hér) og einu sinni fórum við Gummi útfyrir hinn heðbundna veg (keyra frá hóteli - kaupa í matinn - æfing) og fórum að Waterfront þ.s við hlustuðum á tónlist en útum allt voru tónlistarmenn með allskonar hljóðfæri eða sína eigin rödd og danskúnstir. Við enduðum á jazzbar sem var með ágætu live bandi en ekkert meira en það. Við vorum nú bara fegin að skríða aftur undir sæng eftir afrakstur dagsins.

Ferðin var í heild frábær þótt hásinaruglið hafi skyggt töluvert á. Þetta var mín fimmta Suður Afríku ferð og mjög líklega sú síðasta. Ég væri nú reyndar alveg til í að fjárfesta í eitt stykki húsi þarna og búa þarna part úr ári. Stellenbosch og umhverfið þar í kring er einfaldlega einn af fallegustu stöðum sem ég hef komið á.

Ég tók í þetta skiptið ekki mikið af myndum. Ég fékk myndirnar hans Leszeks og jú svo tók ég eitthvað líka sjálf. Þið getið skoðað þær hér.
posted by Thorey @ 22:03  

3 Comments:

At 9:44 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Blessuð Þórey

Gaman að lesa um ferðina ykkar. Harka í þér að synda 1000m í ísköldu vatni!! Eins gott að þú komst upp úr áður en að vatnið fraus!!:)

Hvar voruði í SA? Í Cape Town? Ég ætla að fara aftur til SA þegar ég fæ tækifæri til þess, alveg frábært land. Væri jafnvel til í að fara í nám þangað eða bara vinna þar.

Ég er byrjuð að skoða möguleg B.A. verkefni og er að bíða eftir að fá hugmynd aldarinnar svo að ég fái greinina örugglega birta í virtu tímariti hehe...

Var að lesa á mbl að það er spáð fyrsta vorveðrið í næstu viku og finnst mér það alveg geggjað. Sit samt mest inni og les. Þarf að vera duglegri að fara á hestbak.

Hafðu það gott og skilaðu kveðju til Gumma.

Emilie

 
At 10:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Frábært að æfingarnar gengu vel. Soldið spes að ofkælast í 20 stiga hita í S-Afríku, ekki alveg það sem manni mynda detta fyrst í hug að myndi gerast! En það er náttúrulega ekkert grín að synda í ísköldu vatni, man bara sjálf þegar ég var að æfa að ef laugin fór eitthvað mikið niður fyrir 28° var maður alveg að krókna úr kulda.

 
At 6:23 f.h., Blogger Thorey said...

Sælar stelpur.
Já Emilie ég væri svo til í nám þarna í Stellenbosch og er alltaf að segja það við Gumma. Nú er Gummi meira að segja orðinn heitur fyrir þessum stað svo hvað veit maður..

Við vorum í Stellenbosch sem er 40min frá Cape Town.

Gangi þér vel með ritgerðarefnin og hafðu það gott á hestbakinu :)

Hállbera, já það er í raun þversögn að ofkælast í hitanum. Mér finnst mun betra samt að fara sund heima í frosti og kulda en í laug með góðu hitastigi. Svo skrítið að synda í svona kulda, mér finnst það reyna meira á. Fyrstu dagana gat ég bara synt um 4 ferðir og þurfti þá að stoppa til að ná andanum. Varð mjög fljótt uppgefin. Ég fæ svo mikið sjokk þegar ég fer fyrst ofan í að ég missi nánast andann.
Gaman að heyra frá þér Hallbera.

 

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile