the
 
the
mánudagur, apríl 21, 2008
Úff hvar á ég að byrja...
Jú ég fór til Munchen í dag. Lagði af stað kl 09 og var komin í miðbæ Munchenar um kl 14. Bögglaðist þá með töskuna af lestarstöðinni og til læknisins. Þar var mér tilkynnt að biðtíminn væri það mikill að ég ætti bara að fara aftur og koma kl 16:30. Ég gerði það og þá hófst þvílíka biðin. Fékk þó röntgen á baki (já bakið!) og ómskoðun á sinarnar frá aðstoðarfólki læknisins. Kl um 19:45 er loksins komið af mér og það lá við að ég væri með upplitunarhjartslátt. Á meðan ég beið heyrði ég nefninlega alltaf símann hringja og einu sinni var það sjálfur Frans Beckenbauer sem var á línunni. Þetta er semsagt læknir Bayern Munchen fótboltaliðsins.
Allavega, læknirinn beit ekki og mér leist bara nokkuð vel á hann við fyrstu sýn. Virðist ekki bara vera frægur af því hann var heppinn heldur frægur því hann er góður. Hann skoðaði mig alla og vel alla vöðva í fótunum á mér. Fannst ég stíf á stöðum sem sjúkraþjálfarar hafa ekki látið sér dreyma um að nudda og vill láta taka segulómunarmynd af bakinu. Hann heldur að þaðan má þetta vesen allt rekja. Ég fékk síðan sprautur í sitthvora sinina og um 12-13 sprautur í bakið. Þá tók við vítamínsprautun en ég fékk zink, c vítamín, b12 vítamín og magnesíum. Eins skrítnasta tilfinning sem ég hef upplifað þegar magnesíuminu var sprautað í mig. Hjúkkan tilkynnti mér það að mér mundi hitna í líkamanum við hana og ég bara já já ekkert mál. En þá kom kikkið! Ég gjörsamlega LOGAÐI! Og það í ÖLLUM líkamanum. Ég hreinlega hélt að ég hefði pissað á mig vegna hitans í klofinu... Við sprungum svo úr hlátri þegar ég þurfti að tékka á því. En auðvitað var það nú ekki. Mjög furðuleg upplifun. Eftir þetta alltsaman fékk ég svo bindi utan um sinarnar með tjöru smyrsli í. Já tjöru eða malbiki. Ammoniumeitthvaðsulfat hét það allavega. Á að virka mjög bólgueyðandi.

Semsagt niðurstaða læknisins var:
Hullan um sinarnar mjög þröng og því nær sinin ekki að fljóta þar eins og hún á að gera. Einnig voru staðbundnar bólgur í þeirri vinstri og sú hægri var í verri bólgufasa en sú vinstri. Aðeins þykk. Bakið vill hann skoða betur eins og ég sagði og verður það gert við fyrsta tækifæri. Einnig fæ ég á morgun röntgengeislun beint á sinarnar. (Hef heyrt að konur eigi ekki að fara i þessa meðferð vegna hættu á að líkur á barnseignum minnki en hjúkkurnar þarna sögðust passa vel upp á að geislarnir fari ekkert annað en þangað sem þeir eiga að fara.) Einnig á ég að hitta lækninn á hverjum degi sem ég er hérna.

Með honum vinnur sjúkraþjálfari og kíróprakter. Finnst ég loksins komin á stað sem líkaminn er meðhöndlaður frá öllum áttum og sjónarhornum. Allsstaðar hefur verið einblínt á sinarnar en ekki horft á líkamann sem heild.
posted by Thorey @ 19:26  

1 Comments:

At 9:10 e.h., Blogger Hafdís Ósk said...

Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir þessum lækni og þessari meðferð þinni. Er alveg sannfærð um að þetta sé málið og að þú verðir betri en ný eftir þetta og að rússneska renglan megi fara að vara sig í sumar :)

Núna á allt eftir að haldast í hendur, hugur, líkami og sál!

Þetta er málið!

 

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile