the
 
the
sunnudagur, júlí 27, 2003
Sannleikanum er hver sárreiðastur

Greinin "Frjálsar á Íslandi" sem ég skrifaði síðastliðinn miðvikudag virðist hafa vakið talsverða umræðu meðal frjálsíþróttafólks. Það kom greinilega í ljós í tali manna á milli á Íslandsmeistaramótinu sem lauk í dag. Enda var það tilgangurinn. Nokkuð bar á því að fólk sem greininni var ekki beint að tók hana til sín. Ætlun mín með skrifun greinarinnar var að sýna stöðu mála eins og þau snúa að mér.

Förum dýpra í málin. Ég ætla að byrja á að fara yfir aðstöðumálin. Ég viðurkenni að það er rangt af mér að segja aðstöðuleysi þegar ég er að tala um aðstöðuna fyrir stangarstökk. Ég á frekar að nota "lítil aðstaða" er fyrir stangarstökk á Íslandi því miklar framfarir hafa orðið síðastliðið ár. Fífan og Egilshöllin voru stórt skref í aðstöðu fyrir stöngina. Í Fífunni á FH tvo fasta tíma í viku, tvo tíma í senn. Á keppnistímabilinu er oft erfitt að nýta þessa tíma þar sem þeir passa ekki alltaf inn í æfingaprógrammið. Reyndar eru húsverðir Fífunnar mjög liðlegir við mig þetta sumar og hafa leyft mér að skjótast á æfingu þegar ég hef þurft þess. Ég veit ekki hvað Breiðabliksyfirmenn segja við því þegar þeir frétta það nú, en ég vil þakka fyrir þessi liðlegheit. Í fyrrasumar voru málin önnur enda húsið glænýtt.

Úti aðstaðan á mínum heimavelli, Kaplakrika, er eins góð og mögulegt er. Þar er hægt að stökkva í fjórar áttir og betra gerist það ekki. Þar spilar veðrið inní, en svona er bara Ísland. Það er mjög erfitt að æfa utanhúss. Stöng er þannig grein að þú verður að vera léttklæddur á æfingu, þú verður að hvíla milli stökkva og æfingin tekur langan tíma. Í kulda (<18 gráður) er bara ekki hægt að æfa. Þess vegna kallar stangarstökk á góða innanhúss aðstöðu.

Kjarni málsins er sá að enn vantar heilmikið upp á aðstöðuna. Stangarstökk er meira en dýnur og uppistöður. Til að æfa tæknina þarf ýmsa kaðla, hringi, svifrár og fleiri sértæki.

Nú skulum við fara yfir þjálfaramálin. Með því að segja að mig vanti þjálfara er ég ekki að móðga neinn heldur bara að segja sannleikann. FH-ingarnir hafa alltaf reynt að hjálpa mér í einu og öllu, þar fer fremstur í flokki Eggert Bogason. En því miður er það bara ekki nóg. Eggert hefur gert allt til að létta undir með mér á milli æfinga og á æfingum en lykillinn að velgengni felst í góðum þjálfara og góðum æfingafélögum. Ég hef notið aðstoðar Kristjáns Gissurarsonar og Sigurðar T. Sigurðssonar alveg frá því ég byrjaði að æfa. Þeir hafa einnig gert það sem þeir gátu. Það er heldur ekki nóg. Það er ekki nóg fyrir afreksíþróttamann að hafa aðstoðarmann. Hann verður að hafa þjálfara sem hægt er að reiða sig á hvenær sem er og hvar sem er. Samstarfið við Kidda gekk bara einfaldlega ekki af ástæðum sem ég ætla ekki að fara yfir hér. Við Siggi höfum unnið ágætlega saman en Siggi er í fullri vinnu, með milljón áhugamál og stóra fjölskyldu. Tíminn hjá honum fyrir að þjálfa er ekki til. Í rúm tvö ár hef ég að mestu gert mitt eigið prógramm án eftirlits. Ég hef jafnvel þurft að fara í gegnum nokkrar tækniæfingar ein.

Sumir urðu sárir vegna þess að ég sagði að frjálsar væru ekki stórar á Íslandi. Af hverju verður fólk sárt yfir því? Eigum við að vera með minnimáttarkennd þótt við séum minni en fótboltinn, til dæmis? Mitt álit er að við erum lítil í dag en getum verið stór á morgun. Það er undir okkur komið, sem lifum og hrærumst í frjálsum, að gera frjálsar íþróttir að öflugri grein íþrótta hér á landi. Ríkisstjórnin spilar reyndar stærsta hlutverkið. Það er staðreynd að fjármagn til íþróttagreinarinnar ræður oft úrslitum um hversu margar fyrirmyndir við eignumst. En því fleiri fyrirmyndir, og þá fyrirmyndir sem taka þátt í Íslandsmeistaramótinu, því meiri umfjöllun og athygli fær sportið. Fjölmiðlar stjórna almenningsálitinu algjörlega.

Ég ætla að fá að taka eitt dæmi með sjálfa mig. Ég er ekki vön að kvarta og ætla ekki að gera það hér heldur finnst mér vera kominn tími til að fólk fái að vita aðstöðu afreksíþróttamanna hér á landi. Það halda margir að við vöðum í peningum og lifum prinsessulífi. Það er langt frá því. Ég er mjög þakklát fyrir afreksmannasjóðinn sem ég hef fengið í gegnum árin og hefði ég aldrei getað stundað grein mína að svo miklum krafti eins og ég hef gert ef ég hefði ekki fengið þennan styrk. En aftur á móti var þetta styrkur sem ég hafði unnið mér rétt til að fá. Þetta árið er þetta öðruvísi. Alþjóðlega Ólympíunefndin ákvað að veita mér mánaðarstyrk upp á 1000 dollara á mánuði fram yfir Ólympíuleikana í Athenu 2004. Ég var boðuð á blaðamannafund síðastliðið haust til að skrifa undir þennan samning. Ég átti mjög erfitt með að mæta þar sem átti mjög mikilvægan tíma hjá lækni. Það endaði með því að mér var skipað að koma og skrifa undir. Stuttu seinna frétti ég að ég mundi missa afreksmannasjóðinn í staðinn þar sem ÍSÍ taldi að Olympic Solidarity styrkurinn væri nægur. Þessum nýja styrk fylgir skýrslugerð á þriggjamánaða fresti og ég þarf líka að skila inn öllum kvittunum sem tengjast greininni og þarf með þeim að sýna fram á að ég þurfi þennan styrk. Þetta er semsagt töluverð vinna. Þrátt fyrir þessar fréttir var mér sagt að sækja nú um styrk til afreksmannasjóðs því það væri aldrei að vita hvað þeir gerðu. Í janúar á þessu ári kom stærðarinnar forsíðugrein í íþróttablaði Moggans að ég, Vala og Jón Arnar fengjum A-styrk frá afreksmannasjóði að upphæð 1,4 milljón króna. Ég hugsaði: "Nú, jæja þeir hafa þá ákveðið að styrkja mig áfram". En nei, ég hef ekki enn fengið neina greiðslu en ég fæ reyndar þá þúsundkalla sem vantaði upp á að Olympic Solidarity næði A-styrk afreksmannasjóðs. Ég fæ semsagt 96.000kr á mánuði og það skal duga fyrir húsnæði, uppihaldi, ferðalögum og efniskostnaði. Hvernig getur það verið nóg? Ég er ekki eini íþróttamaðurinn sem hefur lent í þessu. Ég veit að bæði Jón og Vala lentu í þessu sama fyrir síðustu Ólympíuleika.

Ég er búin að reyna að vera að æfa á Íslandi núna í tvö ár og er loksins búin að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ef ég ætla að vera með þeim fremstu í heiminum verð ég bara að flytja erlendis. Það er sárt að segja það en ég get ekki æft heima. Ég valdi Leverkusen því þar er fullkomin aðstaða fyrir stangarstökk, þar eru margir af bestu karla stangarstökkvurum í heiminum sem ég mun vera að æfa með og þaðan er einnig stutt að fara á erlend mót og því lítil orka og peningar sem munu fara í flugvélabrölt. Hvort þessi staður muni skila mér auknum árangri verður bara að koma í ljós. Með því að flytja þangað er ég allavega að gefa framförunum möguleika á að verða að veruleika.
posted by Thorey @ 22:37  

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile