the
 
the
miðvikudagur, júlí 23, 2003
Frjálsar á Íslandi

Ég er búin að vera í Leverkusen, Þýskalandi, síðustu þrjár vikurnar að æfa á milli þeirra móta sem ég hef tekið þátt í um helgarnar. Nú styttist í það að ég komi heim aftur. Ég er að koma heim til að keppa á Íslandsmeistaramótinu en viti menn, ég var að sjá skráningarnar og það eru tveir keppendur í stöng. Ég og Aðalheiður María. SKANDALL!!! Hvað er að gerast, hvar eru stelpurnar sem voru farnar að æfa stöng. Það er greinilegt að frjálsíþróttahöllin verður að rísa hratt (ný búið að taka fyrstu skóflustunguna). Það er einfaldlega ekki hægt að æfa stöng á Íslandi eins og staðan er og skráningarnar á MÍ sýna það og sanna. Ég trúi því ekki að þetta sé áhugaleysi því þetta er svo fjári skemmtileg grein.

Þrátt fyrir aðstöðuleysið hefði ég nú samt haldið að þær stelpur sem væru að leika sér í greininni myndu kannski mæta á mótið. Ég held bara að þátttakan hafi aldrei verið jafn slæm og nú eftir að ég byrjaði sjálf að æfa. Ætli það sé einhver önnur grein á Íslandi sem er með svona fáa keppendur, ég held ekki! Strandblak og curling slær þetta jafnvel út. Hvað með Völu? Jú ég skil hennar aðstöðu betur en stelpnanna sem búa heima og þurfa ekki að fara langt til að keppa. Vala er líka að reyna að ná lágmarkinu fyrir HM og vill sennilega keppa þar sem aðstæður eru góðar. Það er ekki mikill tími þar til lágmarkinu skal vera náð og því mikilvægt fyrir hana að hitta á góðar aðstæður. Reyndar er mótið haldið í Borgarnesi í þetta skipti en ég trúi því samt ekki að það sé ástæðan fyrir svo slæmri þátttöku og nú. Sjálf hefði ég getað sleppt þessu móti og verið í Leverkusen fram að Bikar og æft í sól, sumri og geggjaðri aðstöðu og komið vel undirbúin til leiks á HM í París. En nei, ég borga minn flugmiða heim og get svo ekki séð fram á að borga nýjan flugmiða til að skreppa til Leverkusen fram að Bikar sem er 9. ágúst heldur verð ég að æfa þjálfaralaus síðustu vikurnar fyrir stærstu keppni sumarsins, sjálft Heimsmeistaramótið. Fúlt. Staðan er nú reyndar þannig núna að mótið er ekki einu sinni löglegt í stönginni þar sem aðeins tveir keppendur eru skráðir til leiks, en þeir verða að vera lágmarks þrír. Hvað á ég að gera? Skrópa eða mæta til að halda sumum góðum?

Að keppa á Íslandsmeistaramótinu er samt mikilvægt fyrir frjálsar á Íslandi. Frjálsar eru ekki stór íþróttagrein hér heima og ef afreksíþróttamennirnir keppa ekki þá er hætta á að almenningsálit og álit ungra frjálsíþróttamanna á mótinu lækki um nokkur þrep. Það eru ekki miklir möguleikar fyrir fólk í frjálsum fyrir þáttöku í mótum allt árið. Dýrt er að ferðast til annarra landa til að leita að sterkari keppnum eða betri veðurskilyrðum. Það er ekki hægt að stökkva upp í bíl og þjóta yfir landamæri. Íslandsmeistaramótið á að vera mót sem nýtur virðingar og fær mikla athygli í fjölmiðlum. Ekkert MÍ, engar frjálsar á Íslandi.
posted by Thorey @ 21:31  

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Þórey Edda Elísdóttir

See my complete profile